fimmtudagur, júlí 29, 2004

Börn og bíll

Bíll... framhaldssaga
Spurning hvort ég ætti að láta síðuna frekar heita bílamamma ;-) en ég verð samt að segja frá því þegar ég sótti um að fá að keyra bílinn á Íslenskum númerum. Þvílíkar persónunjósnir!

Ég þarf að fylla út heimilisfang bæði hér og á Íslandi og taka fram hvort um eigið húsnæði eða leiguhúsnæði er að ræða. Ekki nóg með það heldur á ég að tiltaka, ef um leiguhúsnæði er að ræða, hvort það er hús, íbúð eða herbergi og hvort það er með húsgögnum eða ekki !!! Afar mikilvægt þegar að því kemur hvort ég má vera á íslenskum númerum í Danmörku!!! Svo á ég að segja hvað ég ætla að keyra bílinn mikið, hvar, hve margar helgarferðir eða önnur frí ég ætla að fara í og hvert. Þannig að ég veit ekki nema ég þurfi að fresta ritgerðinni einu sinni enn, þetta verður svo mikil vinna að kortleggja akstur komandi árs ;-)

Börn
Af börnum er það helst að frétta að þegar Birta og Ásdís María koma saman mætast svo sannarlega stálin stinn. Þær gefa hvorug hársbreidd eftir ef þær eru ekki sammála og það eru hin ýmsu tilefni sem þær finna sér til að vera ekki sammála!! Og ef þær eru að leika sér með dót sem ekki er til tvennt nákvæmlega eins af þá er eins gott að láta vita fyrirfram hvernig á að skiptast á með það og helst að vera með skeiðklukkuna á þeim svo ekki halli á neinn.
Aðalheiður er oftast að leika sér við Sonni vinkonu sína en þegar hún er með hinum tveimur þá færist enn meira fjör í leikinn því þá hafa hún og Birta soldið verið að skilja Ásdísi útundan. Þær hafa auðvitað alltaf skýringu á reiðum höndum hvers vegna ekki er hægt að hafa hana með, hún  stríðir svo mikið, en þó það sé smá púki í henni þá er spurning hvort kom á undan, eggið eða hænan :-)
Guðný er búin að vera hjá vinkonu sinni í Lysabild núna í nokkra daga (þar sem þær voru í skóla meðan þau bjuggu í Skovby). Ég sá það fyrsta daginn sem ég var hér að Sabrína á tvær mömmur því Guðný er svo rosalega dugleg með hana :-)
Sabrína er auðvitað mesta krútt ever og ef hún verður ekki fordekruð af allri þeirri athygli sem hún fær þá kalla ég hana góða ;-) Það er rifist um að fá að halda á henni og skvísurnar sem eru ekki nógu stórar til að halda mikið á henni sitja tímunum saman hjá henni á gólfinu og leika með dótið hennar fyrir hana, svona af því hún getur það svo lítið sjálf...

góða nótt

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home