föstudagur, ágúst 06, 2004

Ströndin

Í gær fór Aðalheiður sem sagt í Sommerland syd með vinkonu sinni og í staðin fengu Ásdís, Birta, Guðný og Sabrína að fara á ströndina. Sabrínu fannst reyndar bara alls ekkert gaman þar en okkur hinum fannst það frábært, Birta og Ásdís busluðu í sjónum, Guðný lá í sólbaði og við Linda tókum talsvert mikilli hafgolu feginshendi því það er hrikalega heitt!! 30 stiga hiti í gær og í dag og fór alveg niður í 26-27 í gærkvöldi.
Ég held bara að ég fái mér viftu í svefnherbergið, þetta er fullmikið fyrir svona klakabúa!
Eftir ströndina fórum við aðeins á göngugötuna í Sönderborg, þar sást greinilega að sumarfríin eru búin því varla var sála á ferli! Svo settum við punktinn yfir i-ið með því að fá okkur McDonalds í kvöldmat (hmmm... og við Linda sem erum byrjaðar í átaki... en hvað gerir maður ekki fyrir börnin... lætur sig meira að segja hafa það að borða hamborgara ;-)

Við Birta fórum aftur í skólann í dag, auðvitað, og það var bara ágætt, ég læri heilmikið því kennarinn hennar talar svo hægt og skýrt og svo auðvitað af því að tala við krakkana. Þau eru soldið feimin við Birtu en hún var samt að leika við eina stelpu í dag og ég túlkaði fyrir þær ;-) Þær voru með eins konar púslkubba og bjuggu til girðingu, gras og slatta af lömbum.

Skólinn er voða frjálslegur, við erum enn ekkert farin að fara eftir stundatöflunni, förum ekki einu sinni endilega í frímínútur á sama tíma og hinir heldur bara þegar hentar. Það er mikið leikið og í frímínútum mega krakkarnir ráða hvort þeir eru inni eða úti og Birta hefur alveg eins verið inni þó að frænkur hennar séu úti að leika. Bæði er hún soldill "innipúki" og svo er bara alveg fullt af spennandi dóti sem hún þarf að prófa.

Inni í stofunni eiga þau hvert sinn bolla til að fá sér vatn, hvert sín skæri, hvert sína skúffu til að geyma í myndir sem þau teikna og svo eru sérstakir bakkar til að geyma á dót sem er í miðjum leik eins og kubba og svoleiðis.

Birta er voða hrifin af kennaranum, ég sé að þær eiga eftir að verða góðar vinkonur, við fórum í skoðunarferð um skólann í dag og þá fór hún og leiddi kennarann í staðin fyrir mig! Hins vegar er þetta auðvitað ansi erfitt stundum og kl. 10 vildi hún endilega fara heim (skólinn er frá 8-12), var alveg búin að fá nóg en svo fengu þau taupoka til að merkja og lita mynd á og eftir það flaug tíminn frá henni svo skóladagurinn var búinn áður en hún vissi af. Taupokana fá þau svo að eiga til að geyma í þeim aukaföt og vetrarföt þegar þar að kemur.

En nú er komin helgi með sól og sumri og bara 13 dagar þar til Ásdís amma og Guðni afi koma :-)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home