þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Taka tvö

Jæja... búin að vera pirruð út í þessa bloggsíðu í nokkra daga... best að prófa aftur :-)

Hér er margt og mikið búið að ske og ég held ég reyni að rifja það upp soldið í tímaröð!!

Mánudaginn 16.8. fór ég á bókasafnið í Sönderborgarháskóla og náði mér í fyrstu bókina vegna ritgerðarsmíðarinnar!!!!!!!!!!! :-) :-)

Í Birtu skóla byrjar dagurinn á því að syngja og öll börnin segja nafnið sitt og telja svo hvað þau eru mörg. Birta hefur ekki viljað taka þátt í þessu en við vorum búnar að semja um það að hún myndi segja nafnið sitt á föstudeginum þegar hún var svo lasin. Þar með varð að byrja nýja viku á að telja í sig kjark aftur en á þriðjudaginn tók mín kona sig saman í andlitinu og sagði bæði nafn og númer eins og herforingi !!! Ég kom aðeins á eftir henni í skólann því ég náði ekki að borða morgunmat fyrir 8 (það tekur á að koma öllum grislingunum af stað ;-) og þegar ég mætti tilkynnti Mike (einn bekkjarbróðirinn) mér að hún hefði sagt nafnið sitt og var afar glaður yfir því. Mér finnst svo gaman að fá að vera með henni og kynnast öllum þessum skemmtilegu karakterum í bekknum. Ég og kennarinn höfum grínast með að ég þyrfti að fá vinnu hjá henni sem aðstoðarkennari því það er meira en að segja það að sinna 22 hálf-ósjálfbjarga gormum í 4 tíma streit!

Föstudaginn 20.8. kom bekkjarsystir Birtu, Thilde, með henni heim úr skólanum. Birta var auðvitað alveg ægilega hamingjusöm yfir því að fá vinkonu með sér heim en Thilde þessi er afar fullorðinsleg og dugleg stúlka sem situr við hliðina á Birtu og hefur leikið talsvert við hana og hjálpað mér þegar ég veit ekki hvað hlutirnir heita. Ásdís lék með þeim megnið af tímanum sem var fínt því hún er hinn besti túlkur. Við skruppum svo og gáfum öndunum á tjörninni rétt hjá skólanum þegar allir voru búnir að fá nóg af barbí.
Thilde labbaði með okkur á járnbrautarstöðina að sækja ömmu og afa og við skiluðum henni heim í bakaleiðinni.
Það voru að sjálfsögðu gríðarlegir fagnaðarfundir þegar amma og afi komu og hér hefur þurft mikla skipulagshæfileika til að allir sitji jafnoft við hliðina á hvoru þeirra við matarborðið og allt það ;-)

Laugardaginn 21.8. byrjuðum við á því að fara með miðskvísurnar þrjár á sundnámskeið í Aabenraa. Þetta var fyrsti tíminn og mikil gleði með það. Sundlaugin var svo vel upphituð fyrir blessuð börnin að sundhöllin eins og hún lagði sig var eins og gufubað. Svitinn hreinlega bogaði af foreldrunum sem sátu og fylgdust með. Næst held ég að maður skelli sér bara í sundbol líka!
Mamma og Guðni röltu um höfnina í Aabenraa á meðan og skoðuðu skútur, þeirra helsta áhugamál ;-)
Að sundinu loknu brunuðum við til Fröslev en þar voru fangabúðir í seinni heimstyrjöldinni. Þar hefur verið sett upp safn með alls kyns myndum og gömlum munum frá þessum tíma. Eitt herbergið var með kojum og skápum og öllu tilheyrandi eins og það var á sínum tíma og þetta hefur ekki verið neitt sældarlíf á okkar mælikvarða en þó eins og lúxushótel miðað við útrýmingarbúðirnar. Minni stelpurnar eru auðvitað alls staðar ánægðar þar sem hægt er að kaupa ís og við klikkuðum ekki á því enda hið besta veður þrátt fyrir rigningarspá. Reyndar voru þessar litlu mjög áhugasamar og afi og amma óþreytandi við að sýna þeim og útskýra.
Alla vega voru allir ánægðir með að hafa skoðað þetta nema einna helst unglingurinn en það er auðvitað í starfslýsingu þeirra að finnast allt svona ótrúlega boring svo við tókum það ekkert nærri okkur ;-)
Frá Fröslev var svo skroppið til Þýskalands til að kaupa mat og bjór og við þurftum að fara í 4 eða 5 búðir áður en við fundum rétta bjórinn handa ömmunni og afanum. Í síðustu búðinni keypti yngra fólkið líka fullt af áfengi og kvöldið endaði því með spjalli fram á rauða nótt. Skarpi kíkti líka aðeins með vinkonu sína frá Íslandi svo þetta varð bara næstum partý!

Sunnudaginn 22.8. tókum við því rólega heima. Birta fór að vísu í afmæli til Söndru sem er með henni í bekk og það var bara nokkuð gaman hjá henni. Afmælið átti að vera í 3 tíma en ég sótti hana aðeins fyrr, eftir að mamma Söndru hringdi, því eitthvað var þetta erfitt hjá litla stýrinu. En ég kalla hana nú samt góða að vera þar í næstum 2 tíma ein þar sem enginn skilur hana. Í skólanum eru þó Ásdís og Aðalheiður í næstu stofum.

Mánudaginn 23.8. Mamma og Guðni fóru með lestinni til Sönderborgar um morguninn og við fórum svo seinni partinn og sóttum þau. Mamma keypti rosalega djúsí svínasteik sem átti að vera í ofninum í tvo og hálfan tíma. Við sáum fram á kvöldmat klukkan hálfníu þannig að við keyptum pulsur handa stelpunum og gáfum þeim svo að borða og sendum í rúmið áður en við borðuðum. Purusteikin var svakalega vel heppnuð hjá okkur :-) og þetta var ósköp notalegt að borða bara fullorðna fólkið í rólegheitum. Við ákváðum að þetta væri nauðsynlegt ca. einu sinni í viku en þegar mamma var að passa börn í Englandi þegar hún var unglingur þá var þetta svona á hverju kvöldi þar.

Í dag fórum við svo til Flensborgar (sem er í þýskalandi fyrir þá sem eru jafn sleipir og ég í landafræði) og mældum aðeins út göngugötuna. Mamma fór í uppáhaldsbúðina sína þar, hana Bonitu, og keypti sér buxur og jakka. Annað var bara smádót og ekkert vísakort brunnið yfir ;-)

Í samráði við kennarann hennar Birtu ætla ég aðeins að fara að draga mig í hlé þar (því miður, mér finnst svo gaman að fylgjast með :-( og ég byrjaði í morgun með því að mæta klukkutíma á eftir henni. Það kemur sér vel að hún er farin að lesa því ég er búin að skrifa nokkur orð á blað bæði á íslensku og dönsku sem hún getur notað ef hún þorir ekki að tala.

Ég veit ekki hvort ég er búin að muna eftir öllu sem ég skrifaði síðast, þegar allt hvarf, en alla vega er komið nóg í bili. Ef einhver er að lesa ?? þá má ég ekki hræða fólk frá með því að skrifa heila ritgerði í hvert sinn :-)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home