sunnudagur, júní 12, 2005

Þá eru barnapíurnar mínar lentar, komu seint í gærkvöldi og gistu hjá Agnesi ömmu (Guðnýjar sum sé) fyrstu nóttina en eru núna sofnaðar hér niðri hjá mömmu (ég fékk "leigt" hjá henni herbergi fyrir þær). Þær stefna á að stunda sundlaugarnar gimmt (sem verður minni konu auðvitað ekki mikið á móti skapi ;-) og kíkja svo í Húsdýragarðinn, Kringluna, Perluna og örugglega eitthvað fleira. Vonandi eiga þær eftir að skemmta sér vel, alla vega er Birta alsæl með að fá þær !

Önnur stórtíðindi ! Haldiði að maður sé ekki bara búinn að kaupa sér miða á Duran Duran tónleika :-D

Ég var á báðum áttum þegar ég heyrði fyrst um þá, var eitthvað að halda því fram að ég hefði svo sem ekki haldið neitt rosalega mikið upp á þá, átti ekki einu sinni plötu með þeim... en svo fór ég að rifja upp þá miklu vinnu sem við mamma lögðum í að sauma á mig jakka (eftir ljósmyndum !!) eins og minn uppáhalds "Durani" Andy Taylor átti ;-) Þannig að "ekki aðdáandi" afsökunin var eiginlega fallin um sjálfa sig.
Frænkur mínar Systa og Þórunn fara með mér og Linda og Kristján veit ég að ætla að fara og svo mun maður örugglega sjá bregða fyrir mörgum andlitum frá því í denn eða á Duran Duran tímanum svokallaða ;-D
Ég segi það ekki að maður hefði samt verið spenntari fyrir að eiga miða á þessa tónleika ef þeir hefðu verið haldnir fyrir ca. 20 árum !!

Af menningarviðburðum ;-) helgarinnar má nefna að við Birta fórum í bíó í dag í boði KB banka, sáum Vélmennin, ansi skondna teiknimynd. María vinkona Birtu fór með, gaman að því, langt síðan við höfðum hitt hana og gaman hvað þær náðu strax vel saman aftur :-)
Síðan las ég stórgóða bók, Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Hún er ekki nema tæpar 500 blaðsíður og ég byrjaði á henni seint á föstudagskvöld og kláraði hana undir morgun aðfararnótt sunnudags! Yndislega vel skrifuð og ég grét á köflum með ekkasogum yfir því sem blessað fólkið gekk í gegnum :-) Mæli með henni ef fólk vantar eitthvað gott að lesa.

Ég man ekki hvort ég hef nefnt það hér áður en ég er í lesklúbb, við skiptumst á að velja bækur og hittumst svo og ræðum þær ofan í kjölinn að lestri loknum. Mjög skemmtilegt og verður stundum til þess að maður les bækur sem manni hefði annars ekki dottið í hug að lesa. T.d. tók ég Halldór Laxness í sátt í fyrra (hann var sum sé ekki minn uppáhaldshöfundur á mínum grunn- og menntaskólaárum) þegar ein valdi Sjálfstætt fólk sem reyndist hin besta lesning ! Skil ekki af hverju enginn var búinn að segja mér það fyrr ;-)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home