miðvikudagur, mars 23, 2005

Bílamamma ;-)

Well well well...

Ég hélt það hefði verið stúss að finna út úr bílamálunum þegar ég flutti út en bojóboj... það var nú bara draumur í dós! (bara klára þessa bílaumræðu áður en lengra verður haldið ;-)

Þegar ég sótti bílinn til Árósa í fyrra þá datt mér nú ekkert í hug að hringja á undan og kanna hvernig það allt gengi fyrir sig. Við bara brunuðum þangað uppeftir, hele familien, mættum á bryggjuna nokkrum klukkutímum eftir að skipið kom í höfn og báðum um skóda á nafni Guðrúnar. Þar hittum við fyrir nokkra aldeilis almennilega menn sem drifu út bláan skóda á nafni Helgu. Við sendum þá auðvitað til baka og báðum um rauðan skóda (þar sem Helgu skódi var gamall, rispaður og með rykugar pottaplöntur í aftursætinu sem heilluðu mig ekki) og stuttu síðar komu þeir akandi á eðalkerrunni minni. Mig minnir að ég hafi skrifað nafnið mitt á einhvern snepil en ók svo burt á bílnum ca. klukkutíma eftir að ég kom á staðinn.

Þegar ég svo fór með bílinn aftur í skip var þetta jafnvel einfaldara ef eitthvað var. Ég þurfti ekki einu sinni að borga og maðurinn sem tók við bílnum var sá hinn sami og afhenti mér hann á sínum tíma og hann mundi vel eftir þessum "vitlausa" skóda.

Skipið kom svo til hafnar í Reykjavík að morgni 22. mars. Það hvarflaði aldrei að mér annað en að ég fengi bílinn afhentann þann sama dag. En því var nú ekki aldeildis að heilsa!!! Ég hringdi í Eimskip þann sama morgun og var þá sagt að ég þyrfti að ná í afgreiðslu Tollgæslunnar sem lokaði hálffjögur (tollgæsla hvað... ekki voru danirnir að eyða tíma tollvarðanna í að skoða bílgrey með nokkrum fatalufsum í). Ég taldi mig því hafa allan heimsins tíma þegar ég fór úr vinnunni klukkan tvö.

Ég mætti galvösk í afgreiðslu Eimskipa með veskið á lofti til að borga blessaðan bílinn út. Þá var sú afgreiðsla flutt í Vöruhótelið sem þó var í næsta húsi og allt gott um það að segja. Þegar þangað kom var bíllinn ekki á farmskrá skipsins!!! OMG... höfðu þeir gleymt að senda hann með skipinu?? Nei eftir símtal við skrifstofuna í Árósum kom í ljós að hann hafði farið með en það þurfti að senda einhverja pappíra og ég beið eftir þeim í tæpan klukkutíma. Þá var auðvitað búið að loka hjá Tollgæslunni.
Ég dreif mig því í morgun eldsnemma og hitti þar á afskaplega almennilegan mann sem vildi allt fyrir mig gera og ætlaði að mér virtist að afgreiða tollskýrsluna meðan ég beið. En þá tók ekki betra við... skýrr tölvukerfið þeirra virkaði ekki!!! Ég var auðvitað afar skilningsríkur kúnni og var ekkert að flíka mínum nýja vinnustað, heldur fór og mátti hringja um hádegi.
Um hádegi svaraði mér stúlka sem vissi ekkert um mín mál og bað mig að hringja klukkan þrjú.
Klukkan þrjú fann stúlkan tilbúna pappíra og ég brunaði glöð í bragði niður á Héðinsgötu og sótti stimplaða tollskýrslu (slapp meira að segja við að borga toll af sjónvarpinu sem ég keypti úti og reyndist tollskyllt af því ég var ekki ferðamaður en hafði samt ekki búið erlendis nógu lengi til að sleppa við tollinn... hver á að geta áttað sig á þessum reglum öllum!?!?!?!).

Þegar þarna var komið sögu var ég orðin svo forsjál að ég ákvað að hringja í Eimskip til að vita hver væru næstu skref. Eftir langa bið í símanum og endalausar spurningar um það hvort ég væri að bíða eftir Aðalheiði (hvernig átti ég að vita það!!!) þá segi ég títtnefndri Aðalheiði, glöð í bragði, að ég sé með stimplaða tollskýrslu og spyr hvað ég geri svo. Nú þú kemur og borgar og ættir svo að fá bílinn fljótlega eftir helgi. Whaaaaaaaaaaat!!! EFTIR HELGI!!! Já varan er nú í gámi ennþá!!! (mjög hissa í málrómnum að ég skuli ekki átta mig á því). Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að hafa verið, og vera enn frekar núna, í þjónustustarfi og vita hvað það er leiðinlegt þegar maður er skammaður fyrir hluti sem maður ræður ekki við, þá varð ég bara alveg hrikalega pirruð við aumingja konuna. Ég meina... hversu flókið er það að keyra einn bíl út úr gámi?? En það var alveg sama hvað ég var pirruð og hvað ég lýsti því hve dásamlega auðvelt þetta hefði verið í Danmörku þá varð konunni ekki hnikað.

Þannig að vesalings bíllinn minn (og tölvan og sjónvarpið og geislaspilarinn og saumvélin og pappírarnir til að gera skattaskýrsluna ásamt slatta af öðru dóti) þarf að hýrast í gám við Sundahöfn alla páskana.

Ja hérna hvað maður getur velt sér upp úr hlutum sem skipta í raun voða litlu máli :-) En nú skal ég hætta að vera pirruð á þessu... ég lofa :-D

Og svo lofa ég líka að skrifa allt hitt sem ég ætlaði að skrifa núna (um kveðjustund Birtu í skólanum, ferðina heim, fyrstu dagana í vinnu og skóla hér) á morgun.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home