sunnudagur, mars 06, 2005

Ferðalag, flensa og flutningar!!

Svo ég byrji á byrjuninni þá lögðum við Birta upp í helgarferðina á miðvikudag í síðustu viku.

Hér í Danmörku var örugglega 10 cm jafnfallinn snjór sem þýddi MIKLAR tafir á lestarferðum, lestin okkar átti að fara héðan frá Kliplev kl. 12:26 en seinkaði strax um hálftíma á leiðinni frá Sönderborg (sú leið á að taka 26 mín.). Þetta gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi því við vorum í Kaupmannahöfn kl. hálfátta um kvöldið í stað 15:46 eins og planið var. Það varð því lítið úr því að við spókuðum okkur í höfuðborginni þann eftirmiðdaginn, við keyptum okkur McDonalds á höfuðbananum og fórum beina leið á Saga hótel og upp í rúm að sofa eftir að úða í okkur hamborgurunum.

Það var lán í óláni að mamma hafði komið með þessa brilljant hugmynd að fara til Köben daginn áður en við ætluðum heim því lestin kl. 06:26 á fimmtudagsmorgni náði örugglega ekki í tæka tíð fyrir flugið heim um hádegið.

Mamma sótti okkur svo til Keflavíkur og þaðan brunuðum við beint vestur í Melaskóla að sækja Eydísi, vinkonu Birtu, og hún kom með í Blönduhlíðina og þangað kom líka Eygló stuttu seinna. Þær skemmtu sér konunglega saman skvísurnar og borðuðu svo vel af "dönskum" kjötbollum sem reyndar voru búnar til úr al-íslensku hakki!

Á fimmtudagskvöldinu fór ég svo í saumaklúbb en mamma og Birta dúlluðu sér heima. Það var auðvitað rosa stuð í saumó og kjaftað fram á nótt :-)

Þegar ég vaknaði á föstudagsmorgni var ég eitthvað skrítin, fékk mér verkjatöflu og dreif mig í heimsókn á launadeildina, skilaði Birtu til pabba síns, borðaði með Kollu og Önnu Karenu og fór svo í atvinnuviðtal (kem nánar að því síðar ;-)

Þegar ég sótti mömmu um fimmleytið var ég aftur orðin eitthvað skrítin og var orðið svo illt í hálsinum að ég skellti mér á læknavaktina til að láta taka streptókokkapróf (sællar minningar veturinn sem ég fékk það ógeð ca. 5 sinnum!!). Ekki reyndust það streptókokkar og ég dreif mig í blöndó til að borða (og fá mér meira íbúfen) áður en við fórum í leikhús. Við sáum Híbýli vindanna í Borgarleikhúsinu og mér fannst sýningin góð en leið ekki beint vel svona í lokin.

Þegar heim kom skreið ég beint undir sæng með trefil um hálsinn og hóstasaft á náttborðinu. Þar lá ég svo bara og gat ekki annað (nema mamma dröslaði mér aftur á læknavaktina á laugardeginum og þar fékk ég inflúensu-úrskurð) þar til á miðvikudagsmorgun þegar ég skreiddist, við illan leik, út í bíl og þaðan út í flugvél og þaðan út í lest og þaðan undir sæng á skólagötu um kvöldmatarleitið.

En þrátt fyrir flensu tók ég nú samt þá ákvörðun um helgina að taka áðurnefndu atvinnutilboði sem mér hafði borist nokkrum dögum fyrr og við Birta erum sum sé að flytja til Íslands aftur þann sextánda þessa mánaðar :-D

Þar sem ég veit ekki hversu víðlesið þetta blogg mitt er (sökum fátæklegra gestabóka- og kommentaskrifa lesenda ;-) þá ætla ég ekki að gefa upp að svo stöddu hvar téð atvinna er, þeir forvitnustu geta óskað eftir upplýsingum í tölvupósti en hulunni verður svipt af þeim leyndardómi fljótlega í vikunni.

Í dag var svo haldið upp á afmæli Birtu.
Eins og þið kannski munið voru miklar pælingar hér um daginn varðandi afmælisköku og var móðirin farin að hafa af því örlitlar áhyggjur að hennar listrænu hæfileikar væru ef til vill af of skornum skammti en þegar upp var staðið óskaði daman eftir blómaköku sem var blessunarlega einföld í útfærslu :-)

Fleiri myndir úr afmælinu eru á Birtu síðu.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Sæl og blessuð.
Það er nú gott að sjá að þú ert komin til það góðrar heilsu að þú getur orðið sest við tölvuna.
Til hamingju með barnið á morgun.
Sjáumst.
Þín mamma.

07 mars, 2005 12:01  

Skrifa ummæli

<< Home