þriðjudagur, apríl 12, 2005

Loksins loksins !!!

Ég lofaði sjálfri mér þegar ég byrjaði með þessa síðu að vera ekki sí og æ að afsaka ef langt liði milli þess að ég skrifaði. En þegar maður lofar að skrifa á morgun og svo líða rúmlega tvær vikur þá verður maður að biðja dygga lesendur forláts á þessum trassaskap og geri ég það hér með!!

Við lentum sum sé á klakanum 16. mars og Birta byrjaði í skólanum strax daginn eftir. Hún kveið lifandis ósköp fyrir svona alla vega kvöldið áður en svo var ég með henni einn tíma og þá mátti ég alveg fara. Eftir hádegismatinn fór ég með kuldagallann til hennar (því í Hlíðaskóla þarf að fara út að leika í ÖLLUM frímínútum) og þá var hún umvafin stúlkunum í bekknum sem kepptust um að aðstoða hana við að rata og finna út úr hlutunum. Svo fór ég aftur klukkan tvö til að fylgja henni í skólaskjólið og þá skildi hún nú ekki hvað ég var að þvælast þarna, “Viltu fara heim mamma, vinkonur mínar eru að hjálpa mér!”

Þegar hún var búin að mæta í skólann í tvo daga var komið páskafrí og þá þurfti hún að vera í skjólinu allan daginn í þrjá daga og það var soldið erfitt; fáir krakkar, lítið að gerast og dagurinn lengi að líða. Gulla ömmusystir og mikil vinkona Birtu kom þá til bjargar og leyfði henni að vera hjá sér eftir hádegi síðasta daginn og var það mikil gleði hjá skvísunni.

Í fyrsta bekk á Íslandi er verið að læra heilmikið. Börnin eru, að ég held, flest orðin læs og EIGA að læra heima, öfugt við börnehaveklasse í Danmörku þar sem þau MÁTTU einstaka sinnu læra smá heima. Hér þarf að lesa á hverjum degi, skrifa í orðasafn í hverri viku, skrifa sögur og vinna stærðfræðiverkefni og fleira. Þau eru líka í fleiri fögum t.d. samfélagsfræði, þar sem verið er að rifja upp námsefnið um Ísland, Birtu til heiðurs! Svo eru þau í sundi einu sinni í viku sem minni konu finnst nú ekki slæmt :-)

Sem sagt, daman er glöð með nýja skólann og er búin að fá eina vinkonu heim með sér nú þegar!

Ég byrjaði svo í vinnunni 18. mars, daginn eftir að Birta byrjaði í skólanum og mér líst vel á mig. Það er auðvitað skrítið að vera sá nýji og sá sem kann ekki neitt, sérstaklega eftir að vera sá sem þykist vita allt ;-) En þetta er megahresst lið og árshátíð á laugardaginn svo ég er mjög kát yfir þessu!!

Þegar ég leigði út íbúðina í fyrrasumar var ég ákveðin í að vera úti heilt ár og gerði því árs leigusamning. Leigjendurnir voru hins vegar svo elskulegir að finna sér íbúð í einum grænum eftir að ég lét þá vita að við værum að koma heim þannig að þeir losuðu íbúðina um mánaðamótin. Ég er þess vegna að rembast við að koma öllu fyrir núna, gengur svona upp og ofan! Ég er ekki sú skipulagðasta í svona málum, veð úr einu í annað og þetta er auðvitað eins og vígvöllur hjá mér. En skítt með það, ég stefni að því að taka upp úr öllum kössum fyrir jólin ;-)

Nú, um páskana var tekin skyndiákvörðun um að skreppa á Ísafjörð! Rúna amma var búin að liggja í veikindum um tíma og þar sem ég hafði ekki hitt hana ALLTOF lengi ákváðum við (ég, Birta, mamma og Guðni) að nota fríið og skella okkur vestur. Það var auðvitað ofsa gott að hitta ömmu, eins og alltaf, og að sitja og spjalla við föðursysturnar sem ég hitti líka alltof sjaldan. Amma er svo sem betur fer (fyrir okkur alla vega, sem viljum hafa hana hjá okkur sem allra lengst) að hressast aftur en það var gott og gaman að hitta hana og alla hina :-)

Síðan við komum heim erum við búnar að fara í bíó, sund, afmæli til Andra frænda, sjá Línu Langsokk í Borgarleikhúsinu og fullt fleira spennandi sem ég man ekki núna. Næst á dagskrá er að sjá Ávaxtakörfuna, þannig að ef einhver á eftir að sjá hana og langar með þá má sá hinn sami endilega láta í sér heyra.

Læt þetta duga í bili og lofa engu um hvenær ég skrifa næst, kannski á morgun, kannski eftir mánuð ;-)



P.s. ég er búin að fá bílinn ;-) en rúmið sem ég keypti mér í Danmörku kom fyrst í hús í gær og ég ætla ekki að eyða tíma eða orku í að segja ykkur þá sögu!!!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home