laugardagur, janúar 01, 2005

GLEÐILEGT ÁR ...

... og ástarþakkir fyrir allar jólakveðjur og sendingar!!!



Þá eru hátíðahöldin afstaðin.
Hér er ekkert verið að bíða eftir neinum þrettánda. Jólaskrautið var tekið niður í búðunum milli jóla og nýjárs og áramótaskraut sett upp í staðin og jólatrén verða svo sótt á morgun fyrir þá sem eru búnir að setja þau út fyrir.

Við höfum haft það afskaplega gott hér í Kliplev. Afar hefðbundið jólahald með risajólapakkaflóði, hamborgarhrygg, sítrónumatarlímsbúðingi (frómas ;-), hangikjöti, nóakonfekti og meira að segja fundum við dansk maltöl sem bragðast eins og íslenskt (finnst mér allavega en ég er reyndar ekki heittrúarmaltmanneskja).

Birta var með pabba sínum og afa hjá Sif, föðursystur sinni, í þrjá daga milli jóla og nýjárs og skemmti sér hið besta.

Áramótin voru með þeim skrítnari sem ég hef upplifað, þ.e. flugeldaparturinn af þeim. Það var svartaþoka og svo þegar skotið var upp flugeldum þá hvarf reykurinn ekkert heldur breyttist einhvern veginn í meiri þoku. Við sáum ágætlega okkar eigin flugelda sem við kláruðum að skjóta upp alveg um miðnætti, svo gengum við hér aðeins út götuna til að skoða skothríðina hjá hinum og við sáum varla yfir götuna!! Ca. 10-15 mínútum yfir tólf þá heyrðum við orðið bara í þeim, þó verið væri að skjóta upp í næsta garði!!! Ótrúlega sérstakt!


Hér sjáið þið flugeld :)


Og hér eru stelpurnar í þokunni!

Ég fékk ekki vinnuna sem ég fór í viðtalið út af fyrir jólin, en það var starf íslenskukennara í Sönderborg. Það var nú smá léttir þegar ég var látin vita að ég hefði ekki orðið fyrir valinu því skólastjórinn talaði mikið um að börnin væru í þessari kennslu eftir hefðbundinn skóladag og aðalvinnan væri fólgin í því að hafa þau góð því flest hefðu ekki áhuga á að vera þarna!! Ég var aðeins farin að svitna yfir því að reyna að hafa ofan af fyrir 20-25 þreyttum og pirruðum börnum á aldrinum 10-15 ára og eiga að kenna þeim eitthvað líka!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home