föstudagur, ágúst 05, 2005

Seinni hluti ferðasögu

Nú er svo langt síðan ég kom heim að ég man varla hvað við gerðum eftir að ég skrifaði síðast ;-) Gullfiskaminni þið skiljið !

Alla vega þá fórum við einn daginn að skoða Krusmölle sem er krúttlegur sveitabær sem búið er að breyta í búð/kaffihús/kertaverksmiðju þar sem hægt er að búa til sín eigin kerti. Við vorum svo seint á ferð að við náðum ekki að búa til kerti, gerum það næst, en við gátum keypt ís og það er auðvitað alltaf fyrir mestu !

Svo fórum við í ferðatöskuinnkaupaleiðangur fyrir mömmu, sem okkur fannst ekki leiðinlegt enda allar konur í fjölskyldunni töskuóðar og það svo alvarlega að æðið smitast til tengdadætra/mágkvenna.

Á þriðjudeginum áður en við Birta fórum til Köben skelltum við okkur til Sönderborgar og stelpurnar fóru í Play and Fun house sem er svipað og Ævintýralandið í Kringlunni. Þar hömuðust skvísurnar þar til þær urðu kófsveittar og þreyttar og meira að segja Sabrína fékk að vera með því það er sérstakt babyhorn sem Guðný hjálpaði henni í gegnum :-)

Á miðvikudagsmorgun kl. 06:16 !!! mættum við Birta svo eldhressar í lestina svo við hefðum nú örugglega daginn fyrir okkur í köben. Ég skilað Birtu af mér á Sólbakkann en skellti mér ein í bæinn, kíkti í nokkrar búðir og hitti síðan Gyðu (háskólavinkonu) og Einar Hauk son hennar á Kongens Nytorv (held ég alla vega, er ekki alveg viss á þessum torgum ennþá) og við fengum okkur kaffi og smörrebröd. Fríða og Gunný stormuðu með krakkaskarann í Tívolí fljótlega uppúr hádegi og við Gyða (og Einar Haukur auðvitað) hittum þær þar. Við gerðumst að sjálfsögðu “tívolíbrjáluð” og hentumst á milli tækja (ég geng sum sé algjörlega í barndóm við að komast á svona staði !!). Það var ansi margt fólk og langar biðraðir en maður lætur það nú ekki stoppa sig ! Það voru vægast sagt þreyttar mæðgur sem skriðu upp í rúm rétt eftir miðnætti !!

Það sem helst hefur á daga okkar drifið eftir að við komum heim er að Birta lenti í hrakningum með pabba sínum í Herðubreiðalindum (minnir mig :-s) þar sem bíllinn bilaði út í miðri á en þau og bíllinn eru sem betur fer komin heilu og höldnu til byggða. Nú svo fjölgaði fjölskyldumeðlimum í blöndó í gær þegar gullfiskarnir Gulli og Doppa fluttu inn við mikinn fögnuð Birtu :-D Blessað barnið er búið að bíða eftir þeim í tvö ár, ég lofaði henni sem sagt gullfiskum þegar við flyttum í risið !! Vonandi tekst okkur að hugsa vel um þessi kríli.


Ps. Guðný, þú hefðir átt að vera með mér í bílnum á leiðinni heim af flugvellinum í Keflavík !! Mér varð litið á mælaborðið og klukkan var 4:00 og búið var að keyra bílinn 63.333 km. Ég var ekki nógu fljót að hugsa að stoppa og taka mynd af þessu sögulega augnabliki fyrir þig ;-)