þriðjudagur, júní 28, 2005

Ein í kotinu

Þá er litli unginn minn floginn úr hreiðrinu í bili, flaug með barnapíunum til Billund á laugardaginn :'(
Ég verð að viðurkenna að það var soldið stór hnútur í maganum á mömmunni á föstudag og laugardag en mér leið strax betur að heyra í henni á laugardagskvöldið þegar hún var komin heilu og höldnu á Skólagötuna.
Ég hringdi svo í hana núna í kvöld og hún lék á alls oddi, hélt á Sabrínu á meðan hún talaði við mig og skemmti sér greinilega hið besta. Mátti svo sem alveg vera að því að tala við mig en þegar ég sagði jæja þá heyrðist strax bæ á hinum enda línunnar, ekkert verið að draga kveðjustundina á langinn :-) enda nóg að gera að leika við allar frænkurnar.
Gott að hún unir sér vel litla snúllan !

Svo er mútta vestur á fjörðum og kjallarafólkið flúið að heiman vegna skolpframkvæmda svo ég er næstum ein í öllu húsinu. Nú vantar bara að ég gefi upp heimilisfangið mitt og þá geta perrar landsins sameinast og ráðist inn á varnarlausa konuna ;-)

Ég hef annars drepið tímann frá því Birta fór með því að vinna eins og brjálæðingur, ég veit, ég veit, þetta átti ekki að verða eins og í síðasta starfi en þetta er tímabundin törn (hafiði nokkuð heyrt það áður... hehe).

Svo eru bara tveir dagar í Duran Duran! Hér verður auðvitað klikkað "fyrirtónleika" partý eins og við á þegar maður er 15 ára (tímabundið ástand sem ég geri ráð fyrir að brái af mér fyrir hádegi á föstudag) og auk þess einn heima ! Engin ákvörðun hefur verið tekin um "eftirtónleika" partý enda skipuleggja 15 ára það ekki fyrr en búið er að reka þá út úr tónleikahöllinni ;-)

mánudagur, júní 20, 2005

Afmæliskveðjur

OMG... ég skrifa hér langa færslu 13. júní og gleymi að nefna afmælisbörn dagsins !!!

Elsku Dagný, krúsídúllan mín, INNILEGA TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ !!!
Ég hlakka til að sjá þig í lok júlí !

Og Hjördís ofurkona, takk fyrir síðast í saumó og TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ Á MÁNUDAGINN !!!

Nú svona til að núa ykkur því aðeins um nasir sem búið eða hafið verið að ferðast erlendis þá er búin að vera rjómablíða, heitasti 17. júní í sögu lýðveldisins takk fyrir !
Aumingja Birta er hins vegar búin að vera lasin alla síðustu viku og hún og barnapíurnar hafa því þurft að hanga inni að mestu í góða veðrinu.
En daman er orðin eldhress núna og þær eru búnar að kynna sér strætóferðir í Árbæjarlaugina og ætla að skella sér þangað á morgun :-)

sunnudagur, júní 12, 2005

Þá eru barnapíurnar mínar lentar, komu seint í gærkvöldi og gistu hjá Agnesi ömmu (Guðnýjar sum sé) fyrstu nóttina en eru núna sofnaðar hér niðri hjá mömmu (ég fékk "leigt" hjá henni herbergi fyrir þær). Þær stefna á að stunda sundlaugarnar gimmt (sem verður minni konu auðvitað ekki mikið á móti skapi ;-) og kíkja svo í Húsdýragarðinn, Kringluna, Perluna og örugglega eitthvað fleira. Vonandi eiga þær eftir að skemmta sér vel, alla vega er Birta alsæl með að fá þær !

Önnur stórtíðindi ! Haldiði að maður sé ekki bara búinn að kaupa sér miða á Duran Duran tónleika :-D

Ég var á báðum áttum þegar ég heyrði fyrst um þá, var eitthvað að halda því fram að ég hefði svo sem ekki haldið neitt rosalega mikið upp á þá, átti ekki einu sinni plötu með þeim... en svo fór ég að rifja upp þá miklu vinnu sem við mamma lögðum í að sauma á mig jakka (eftir ljósmyndum !!) eins og minn uppáhalds "Durani" Andy Taylor átti ;-) Þannig að "ekki aðdáandi" afsökunin var eiginlega fallin um sjálfa sig.
Frænkur mínar Systa og Þórunn fara með mér og Linda og Kristján veit ég að ætla að fara og svo mun maður örugglega sjá bregða fyrir mörgum andlitum frá því í denn eða á Duran Duran tímanum svokallaða ;-D
Ég segi það ekki að maður hefði samt verið spenntari fyrir að eiga miða á þessa tónleika ef þeir hefðu verið haldnir fyrir ca. 20 árum !!

Af menningarviðburðum ;-) helgarinnar má nefna að við Birta fórum í bíó í dag í boði KB banka, sáum Vélmennin, ansi skondna teiknimynd. María vinkona Birtu fór með, gaman að því, langt síðan við höfðum hitt hana og gaman hvað þær náðu strax vel saman aftur :-)
Síðan las ég stórgóða bók, Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Hún er ekki nema tæpar 500 blaðsíður og ég byrjaði á henni seint á föstudagskvöld og kláraði hana undir morgun aðfararnótt sunnudags! Yndislega vel skrifuð og ég grét á köflum með ekkasogum yfir því sem blessað fólkið gekk í gegnum :-) Mæli með henni ef fólk vantar eitthvað gott að lesa.

Ég man ekki hvort ég hef nefnt það hér áður en ég er í lesklúbb, við skiptumst á að velja bækur og hittumst svo og ræðum þær ofan í kjölinn að lestri loknum. Mjög skemmtilegt og verður stundum til þess að maður les bækur sem manni hefði annars ekki dottið í hug að lesa. T.d. tók ég Halldór Laxness í sátt í fyrra (hann var sum sé ekki minn uppáhaldshöfundur á mínum grunn- og menntaskólaárum) þegar ein valdi Sjálfstætt fólk sem reyndist hin besta lesning ! Skil ekki af hverju enginn var búinn að segja mér það fyrr ;-)

föstudagur, júní 03, 2005

Aaaarrrrgggg ...

... ég get ekki látið commentin birtast í pop-up glugga!!!!
Hrikalega pirrandi því nú er blogspot komið með svoleiðis fídus án þess að maður þurfi að fá sér haloscan comment eins og svo margir hafa gert.

Ég prófaði að ganni að búa mér til nýja blogspot síðu og þar virkar það eins og engill... ég held ég verði að taka eitthver forritunarnámskeið... eða bara fá mér blog.central síðu ;-) nei smá grín hehe...

miðvikudagur, júní 01, 2005

Kvikmyndastjarna !

Þá er dóttir mín búin að leika í sinni fyrstu kvikmynd !
Ég fór á frumsýningu á hinn stórgóðu stuttmynd "Svarthvít" í dag og þar var auðvitað um tæra snilld að ræða !! Birta lék einn af dvergunum sjö og sýndi snilldartakta þegar hún syrgði Svarthvíti :-D
Sem betur fer fengum við meistaraverkið með heim á diski, þannig að nú geri ég ráð fyrir stöðugum straumi gesta sem vilja berja verkið ódauðlega augum !
En svona án gríns þá var þetta stórskemmtilegt hjá þeim og ekki verra hvað þeim þótti gaman að búa til myndina og hvað þau voru stolt að sýna foreldrunum afraksturinn.

Af mér er það helst að frétta að ég er búin að vera í nammi- og gosbindindi núna í eina og hálfa viku !!
Nammidagur á laugardag en annars hef ég staðið mig eins og hetja, þó ég segi sjálf frá :-) Og trúið mér þegar ég held það út að drekka ekki gos eða borða nammi marga daga í röð þá er um stórafrek að ræða!! Ég er nefnilega fíkill... já... ég játa ég játa... ég er sykurfíkill af verstu gerð.
Fráhvarfseinkennin voru verulega slæm fyrstu tvo dagana, hausverkur dauðans, sérstaklega þar sem ég ákvað að taka þetta með trompi og drekka líka bara einn kaffibolla á dag ! En nú er ég eins og ný og drekk bara vatn allan daginn í vinnunni og er megahress (eða tel mér alla vega trú um það ;-)
Svo... allir saman nú... HÚRRA fyrir mér ;-)