miðvikudagur, mars 23, 2005

Bílamamma ;-)

Well well well...

Ég hélt það hefði verið stúss að finna út úr bílamálunum þegar ég flutti út en bojóboj... það var nú bara draumur í dós! (bara klára þessa bílaumræðu áður en lengra verður haldið ;-)

Þegar ég sótti bílinn til Árósa í fyrra þá datt mér nú ekkert í hug að hringja á undan og kanna hvernig það allt gengi fyrir sig. Við bara brunuðum þangað uppeftir, hele familien, mættum á bryggjuna nokkrum klukkutímum eftir að skipið kom í höfn og báðum um skóda á nafni Guðrúnar. Þar hittum við fyrir nokkra aldeilis almennilega menn sem drifu út bláan skóda á nafni Helgu. Við sendum þá auðvitað til baka og báðum um rauðan skóda (þar sem Helgu skódi var gamall, rispaður og með rykugar pottaplöntur í aftursætinu sem heilluðu mig ekki) og stuttu síðar komu þeir akandi á eðalkerrunni minni. Mig minnir að ég hafi skrifað nafnið mitt á einhvern snepil en ók svo burt á bílnum ca. klukkutíma eftir að ég kom á staðinn.

Þegar ég svo fór með bílinn aftur í skip var þetta jafnvel einfaldara ef eitthvað var. Ég þurfti ekki einu sinni að borga og maðurinn sem tók við bílnum var sá hinn sami og afhenti mér hann á sínum tíma og hann mundi vel eftir þessum "vitlausa" skóda.

Skipið kom svo til hafnar í Reykjavík að morgni 22. mars. Það hvarflaði aldrei að mér annað en að ég fengi bílinn afhentann þann sama dag. En því var nú ekki aldeildis að heilsa!!! Ég hringdi í Eimskip þann sama morgun og var þá sagt að ég þyrfti að ná í afgreiðslu Tollgæslunnar sem lokaði hálffjögur (tollgæsla hvað... ekki voru danirnir að eyða tíma tollvarðanna í að skoða bílgrey með nokkrum fatalufsum í). Ég taldi mig því hafa allan heimsins tíma þegar ég fór úr vinnunni klukkan tvö.

Ég mætti galvösk í afgreiðslu Eimskipa með veskið á lofti til að borga blessaðan bílinn út. Þá var sú afgreiðsla flutt í Vöruhótelið sem þó var í næsta húsi og allt gott um það að segja. Þegar þangað kom var bíllinn ekki á farmskrá skipsins!!! OMG... höfðu þeir gleymt að senda hann með skipinu?? Nei eftir símtal við skrifstofuna í Árósum kom í ljós að hann hafði farið með en það þurfti að senda einhverja pappíra og ég beið eftir þeim í tæpan klukkutíma. Þá var auðvitað búið að loka hjá Tollgæslunni.
Ég dreif mig því í morgun eldsnemma og hitti þar á afskaplega almennilegan mann sem vildi allt fyrir mig gera og ætlaði að mér virtist að afgreiða tollskýrsluna meðan ég beið. En þá tók ekki betra við... skýrr tölvukerfið þeirra virkaði ekki!!! Ég var auðvitað afar skilningsríkur kúnni og var ekkert að flíka mínum nýja vinnustað, heldur fór og mátti hringja um hádegi.
Um hádegi svaraði mér stúlka sem vissi ekkert um mín mál og bað mig að hringja klukkan þrjú.
Klukkan þrjú fann stúlkan tilbúna pappíra og ég brunaði glöð í bragði niður á Héðinsgötu og sótti stimplaða tollskýrslu (slapp meira að segja við að borga toll af sjónvarpinu sem ég keypti úti og reyndist tollskyllt af því ég var ekki ferðamaður en hafði samt ekki búið erlendis nógu lengi til að sleppa við tollinn... hver á að geta áttað sig á þessum reglum öllum!?!?!?!).

Þegar þarna var komið sögu var ég orðin svo forsjál að ég ákvað að hringja í Eimskip til að vita hver væru næstu skref. Eftir langa bið í símanum og endalausar spurningar um það hvort ég væri að bíða eftir Aðalheiði (hvernig átti ég að vita það!!!) þá segi ég títtnefndri Aðalheiði, glöð í bragði, að ég sé með stimplaða tollskýrslu og spyr hvað ég geri svo. Nú þú kemur og borgar og ættir svo að fá bílinn fljótlega eftir helgi. Whaaaaaaaaaaat!!! EFTIR HELGI!!! Já varan er nú í gámi ennþá!!! (mjög hissa í málrómnum að ég skuli ekki átta mig á því). Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að hafa verið, og vera enn frekar núna, í þjónustustarfi og vita hvað það er leiðinlegt þegar maður er skammaður fyrir hluti sem maður ræður ekki við, þá varð ég bara alveg hrikalega pirruð við aumingja konuna. Ég meina... hversu flókið er það að keyra einn bíl út úr gámi?? En það var alveg sama hvað ég var pirruð og hvað ég lýsti því hve dásamlega auðvelt þetta hefði verið í Danmörku þá varð konunni ekki hnikað.

Þannig að vesalings bíllinn minn (og tölvan og sjónvarpið og geislaspilarinn og saumvélin og pappírarnir til að gera skattaskýrsluna ásamt slatta af öðru dóti) þarf að hýrast í gám við Sundahöfn alla páskana.

Ja hérna hvað maður getur velt sér upp úr hlutum sem skipta í raun voða litlu máli :-) En nú skal ég hætta að vera pirruð á þessu... ég lofa :-D

Og svo lofa ég líka að skrifa allt hitt sem ég ætlaði að skrifa núna (um kveðjustund Birtu í skólanum, ferðina heim, fyrstu dagana í vinnu og skóla hér) á morgun.

mánudagur, mars 14, 2005

Århus

Þá er bílinn minn að verða stútfullur af drasli!!
Við ætlum að bruna til Århus strax eftir hádegið þegar stelpurnar eru búnar í skólanum og koma honum í skip. Í leiðinni ætla ég að heimsækja Hjördísi fyrrum nágrannakonum mína á Framnesveginum, hlakka til að sjá hana aftur :-)

Á laugardaginn kom Stína í heimsókn með strákana sína og á sunnudaginn kom Ágústa með sína gutta. Birta fór svo í afmæli hjá Nicolai á sunnudaginn, hann bauð sum sé strákunum í bekknum og Birtu og hún kunni ljómandi vel við sig með strákaskaranum. Að vísu þegar ég sótti hana sat hún í borðstofunni með fullorðna fólkinu, hún hefur ekkert á móti því að eiga alla athygli þeirra fullorðnu ;)

En nú ætla ég að fara að vefja tölvunni inn í sængina mína og reyna að troða rúmfatapokanum í bílinn líka, ótrúlegt hvað hefur bæst við af dóti, ég sem hef ekki keypt neitt hér !!! ;-)

Skrifa næst þegar við verðum lentar í Blöndó !!!

miðvikudagur, mars 09, 2005

Birta liggur og talar upp úr svefni á dönsku !!!
Mér finnst þetta bara svo krúttlegt að ég varð að segja ykkur frá því :-)

Pakkipakkipakk...

Ekki mikið að frétta svo sem...

Nicolai, besti vinur, kom með Birtu heim úr skólanum í gær, hann hefur ekki komið fyrr en Birta hefur heimsótt hann nokkrum sinnum og þau leika voða mikið saman í skólanum. Bæði finnst Birtu mjög gaman að leika heima hjá einhverjum öðrum og svo hafði Nicolai víst af því talsverðar áhyggjur að honum myndi ekki þykja gaman að leika sér þar sem bara væri til "stelpudót"!! (minnir örlítið á ónefndan frænda okkar ... ;-)

Mamma hans átti því alveg eins von á þeim yfir til sín fljótlega eftir hádegi, en viti menn... við Birta vorum þá bara alveg nógu skemmtilegar fyrir hann, og þegar mamman kom að sækja hann klukkan fjögur þá vildi hann ekki fara heim :-)

Annars er Birta komin með skólavist í Hlíðaskóla og á frístundaheimilinu Hlíðaskjóli. Ég hafði auðvitað aldrei áhyggjur af því að hún gæti ekki byrjað strax í skólanum en hélt kannski að ég þyrfti að bíða eftir að koma henni inn gæsluna eftir skóla. Ég hringdi hins vegar í forstöðukonuna og hún var bara með almennilegri konum og hélt það væri nú nóg vesen að vera að flytja frá útlöndum þó hún færi ekki að auka á vesenið. Bara komiði þegar þið viljið og við hlökkum til að fá nýtt barn til okkar :-D

Þannig að Birta byrjar í skólanum fimmtudaginn 17. mars og ég byrja að vinna daginn eftir.
Ó já og ég er sum sé að fara að vinna hjá Skýrr :) Sem Oracle ráðgjafi í deild sem heitir Viðskiptalausnir. Þá vitið þið það!!

sunnudagur, mars 06, 2005

Ferðalag, flensa og flutningar!!

Svo ég byrji á byrjuninni þá lögðum við Birta upp í helgarferðina á miðvikudag í síðustu viku.

Hér í Danmörku var örugglega 10 cm jafnfallinn snjór sem þýddi MIKLAR tafir á lestarferðum, lestin okkar átti að fara héðan frá Kliplev kl. 12:26 en seinkaði strax um hálftíma á leiðinni frá Sönderborg (sú leið á að taka 26 mín.). Þetta gaf tóninn fyrir það sem koma skyldi því við vorum í Kaupmannahöfn kl. hálfátta um kvöldið í stað 15:46 eins og planið var. Það varð því lítið úr því að við spókuðum okkur í höfuðborginni þann eftirmiðdaginn, við keyptum okkur McDonalds á höfuðbananum og fórum beina leið á Saga hótel og upp í rúm að sofa eftir að úða í okkur hamborgurunum.

Það var lán í óláni að mamma hafði komið með þessa brilljant hugmynd að fara til Köben daginn áður en við ætluðum heim því lestin kl. 06:26 á fimmtudagsmorgni náði örugglega ekki í tæka tíð fyrir flugið heim um hádegið.

Mamma sótti okkur svo til Keflavíkur og þaðan brunuðum við beint vestur í Melaskóla að sækja Eydísi, vinkonu Birtu, og hún kom með í Blönduhlíðina og þangað kom líka Eygló stuttu seinna. Þær skemmtu sér konunglega saman skvísurnar og borðuðu svo vel af "dönskum" kjötbollum sem reyndar voru búnar til úr al-íslensku hakki!

Á fimmtudagskvöldinu fór ég svo í saumaklúbb en mamma og Birta dúlluðu sér heima. Það var auðvitað rosa stuð í saumó og kjaftað fram á nótt :-)

Þegar ég vaknaði á föstudagsmorgni var ég eitthvað skrítin, fékk mér verkjatöflu og dreif mig í heimsókn á launadeildina, skilaði Birtu til pabba síns, borðaði með Kollu og Önnu Karenu og fór svo í atvinnuviðtal (kem nánar að því síðar ;-)

Þegar ég sótti mömmu um fimmleytið var ég aftur orðin eitthvað skrítin og var orðið svo illt í hálsinum að ég skellti mér á læknavaktina til að láta taka streptókokkapróf (sællar minningar veturinn sem ég fékk það ógeð ca. 5 sinnum!!). Ekki reyndust það streptókokkar og ég dreif mig í blöndó til að borða (og fá mér meira íbúfen) áður en við fórum í leikhús. Við sáum Híbýli vindanna í Borgarleikhúsinu og mér fannst sýningin góð en leið ekki beint vel svona í lokin.

Þegar heim kom skreið ég beint undir sæng með trefil um hálsinn og hóstasaft á náttborðinu. Þar lá ég svo bara og gat ekki annað (nema mamma dröslaði mér aftur á læknavaktina á laugardeginum og þar fékk ég inflúensu-úrskurð) þar til á miðvikudagsmorgun þegar ég skreiddist, við illan leik, út í bíl og þaðan út í flugvél og þaðan út í lest og þaðan undir sæng á skólagötu um kvöldmatarleitið.

En þrátt fyrir flensu tók ég nú samt þá ákvörðun um helgina að taka áðurnefndu atvinnutilboði sem mér hafði borist nokkrum dögum fyrr og við Birta erum sum sé að flytja til Íslands aftur þann sextánda þessa mánaðar :-D

Þar sem ég veit ekki hversu víðlesið þetta blogg mitt er (sökum fátæklegra gestabóka- og kommentaskrifa lesenda ;-) þá ætla ég ekki að gefa upp að svo stöddu hvar téð atvinna er, þeir forvitnustu geta óskað eftir upplýsingum í tölvupósti en hulunni verður svipt af þeim leyndardómi fljótlega í vikunni.

Í dag var svo haldið upp á afmæli Birtu.
Eins og þið kannski munið voru miklar pælingar hér um daginn varðandi afmælisköku og var móðirin farin að hafa af því örlitlar áhyggjur að hennar listrænu hæfileikar væru ef til vill af of skornum skammti en þegar upp var staðið óskaði daman eftir blómaköku sem var blessunarlega einföld í útfærslu :-)

Fleiri myndir úr afmælinu eru á Birtu síðu.