þriðjudagur, september 28, 2004

Steinaldarmennirnir

Úff... hvað þeir eru ótæknivæddir þessir danir.

Nú er ég búin að þræða næstum hvert bókasafn á suður-jótlandi og það er bara ekki hægt að finna almennilegan stað til að læra á!!!

Á bókasafninu í Aabenraa eru engar innstungur nálægt lesborðunum.

Á bókasafninu í Sönderborg eru borð og innstungur en ekki leyfilegt að setja tölvur í samband!

Á háskólabókasafninu í Sönderborg hitti ég afar almennilegan mann sem var allur af vilja gerður og fann fyrir mig borð nálægt innstungu (sem mátti meira að segja nota! ) en þá var borðið svo lágt og lítið að það hefði varla verið nógu stórt fyrir Birtu og ég fékk í bakið bara af að horfa á það!

Mér dettur nú ekki einu sinni í hug að nefna þráðlaust net við þetta lið, það myndi örugglega ekki vita hvað ég væri að tala um. Eini staðurinn sem ég hef séð auglýsa "internet-stoppested" er McDonalds! Spurning hvort ég sit ekki bara þar næstu tvær vikurnar og læri ;-)

Ég var nefninlega svo tæknivædd að ég keypti mér bók sem mig vantaði, á Amazon.com, sem e-bók. Og þar sem hún er rúmlega 300 síður ætla ég ekki að prenta hana út. Batteríið í tölvunni minni endist hins vegar bara 2 tíma þannig að ég þarf RAFMAGN!!! Hallóóóóó... dönsku tæknihænsni!!

Heyrumst :-)

laugardagur, september 25, 2004

Jæja...

... hér skipast aldeilis veður í lofti.
Eftir vandlega íhugun með "nýja leiðbeinandanum" mínum, minni kæru móðu, hef ég ákveðið að skila ritgerðinni ekki fyrr en eftir ca. þrjár vikur og útskrifast í febrúar!!!
Hmmm... soldið svekkt á sjálfri mér að vera ekki löngu búin að þessu en svona er lífið. Nú verður þetta tekið með trompi, bókasafnið 8 tíma á dag og ekkert bull!

Birta hefur það rosa gott, segist ekki skilja neitt sem kennarinn segir en kom samt heim á föstudaginn og sagði mér að hún ætti ekki að fara í leikfimi á mánudaginn, heldur koma með góða skó því þau ættu að ganga 5 km. Og hvernig veistu það, spurði ég. Nú kennarinn sagði það!!! (döhh... heimskuleg spurning hjá kerlingunni :-)

Ég ætla með Birtu í skólann á mánudaginn og hjálpa henni að segja frá því hvað hún er búin að vera að gera um helgina. Hún er nefninlega búin að vera með gest, hana Önnu, alla helgina og á að segja frá því hvað á daga þeirra hefur drifið. Anna og Benny eru sem sagt dúkkur börnehaveklassens og fara heim með börnunum um helgar, voða spennandi. Svo á þriðjudaginn fer bekkurinn með lestinni til Graasten að skoða skip sem einn pabbinn vinnur á (annar pabbinn er að keyra lestina til baka) og um kvöldið fer ég í foreldraviðtal. 6. október er síðan pizzupartý fyrir börn og foreldra þannig að það er nóg að gera í skólanum!

Annars er mest lítið að frétta, ég sit bara hér og les og skrifa þannig að ég get lítið sagt ykkur hvað fer fram úti í "the real world".

Bangsi bestaskinn

Er ég ekki dugleg að browsa á netinu... fann þetta undir breytingastjórnun ;-)



See what Teddy Bear you are.

mánudagur, september 20, 2004

Nýjar myndir !

Kominn mánudagur, kaupmannahafnarfararnir komnir heim, ég að læra (hmm... ), stelpurnar að föndra og allir kátir :-)

sunnudagur, september 19, 2004

Lukkunnar velstand !!

Þá er nú þessi helgi að renna sitt skeið á enda og allt hefur gengið eins og í sögu (hmm... kannski ætti ég að segja 7, 9, 13 þar sem hjónin eru ekki komin heim ;-).

Mér tókst að koma öllum í skólann á réttum tíma á föstudagsmorgun, tókst að standast freistinguna að leggja mig með Sabrínu þegar hinar voru farnar og tókst að skila uppkastinu næstum því á réttum tíma.

Á laugardaginn fór ég svo með selina þrjá á sundnámskeiðið og á meðan voru Guðný og Trina vinkona hennar að passa litla stýri.

Ég segi það hins vegar enn og aftur að það gerir sér enginn grein fyrir því nema hafa reynt það (og varla þá, því maður gleymir því svo fljótt) hvað það er ótrúlega mikil vinna að hugsa um ungabarn. Það fer hreinlega allur dagurinn í að gefa pela, mata, skifta um bleiur og halda á og hugga og knúsa :-) Og samt er ég sama og ekkert búin að þvo þvott um helgina eða þrífa húsið eða neitt svoleiðis.

En við erum sum sé búnar að hafa það ljómandi gott hér um helgina í fallegu haustveðri :-)

Þökkum þeim sem "hlýddu"

Rúna og fimm fræknu

fimmtudagur, september 16, 2004

Home alone !!!

Jæja, þá er gamla settið stungið af til höfuðborgarinnar og ég er hér í léttu panikkatakki með fimm börn og ritgerð á deadline!!!

Nei, ég segi nú bara svona ;-) Það þarf meira en þetta til að ég fari að panikka fyrir alvöru.

En þar sem ég ætla mér að skila fyrsta uppkasti af ritgerðinni í kvöld, þá ætla ég að fara að elda og koma svo liðinu eldsnemma í rúmið!

Vildi bara rétt segja hæ svo þið hættið ekki að nenna að kíkja á mig hér og láta vita að ef ég skrifa ekkert næstu daga þá er það:
a) af því ég er upptekin við barnauppeldi og skriftir
b) af því ég er stungin af frá öllu saman, eða
c) af því að hmmm... ég veit ekki... ætlaði að segja eitthvað fyndið en er bara svo ófyndin... lýsi hér með eftir c :-)

mánudagur, september 13, 2004

Til hamingju með afmælið JÓNA :-)

Hæbbs
Ég er að fara að elda en vildi bara segja til hamingju með afmælið Jóna mín!!!
Bæó

sunnudagur, september 12, 2004

Engar fréttir hvað ???

Tennur:

Birta missti tönn númer 2 á fimmtudaginn... jibbíí... það er svo gaman :-)
Ásdís mistti tönn númer 7, held ég, á miðvikudaginn!!!
Sabrína er komin með 2 tennur og er soldið hissa á þessum aðskotahlutum, eyðir miklum tíma í að rannsaka þær með tungunni :-)

Innanhússskipulag:

Guðný er flutt upp
Maggi er fluttur niður með skrifstofuna
Við Birta fengum lánaðan stóran og flottan ísskáp hjá Skarpa þannig að nú erum við farnar að borða morgunmat í eigin eldhús"ette"i

- skýrsla endar -

laugardagur, september 11, 2004

Gleymdi reyndar aðalfréttunum!!

Er búin að panta miða til Íslands í október. Best að maður reyna að láta sjá sig í eigin útskrift, svo nú verður ekki aftur snúið með að klára ritgerðina í þessari atrennu!!!

Við komum sum sé heim fimmtudaginn 21. okt. og förum aftur mánudaginn 25. Þannig að ef einhvern langar að hitta okkur þá er bara að panta tíma ;-) hahaha

Nú er allt komið í svo fastar skorður hér að maður hefur bara ekkert að segja!!!

En ég er á fullu að vinna í ritgerðinni, ætla að skila fyrsta uppkasti í næstu viku.

Birta er mjög ánægð í skólanum, er farin að spjalla aðeins við krakkana, segir orðið einfaldar setningar eins og; "pas på", "la være", "må jeg være med" og "det må du ikke" en segist ekki skilja vel þegar kennarinn er að útskýra eitthvað. En maður finnur mun á henni á hverjum degi.

Talandi um mun á hverjum degi þá stækkar Sabrína og mannast auðvitað með hverjum deginum. Hún er farin að velta sér á alla enda og kanta og ýtir sér soldið áfram á maganum þegar vel liggur á henni. Það eru skiptar skoðanir um hvort það er vísvitandi gert eða ekki ;-) Hún er farin að fá maukað grænmeti og situr voða montin í tripp-trapp stólnum þegar hún borðar.

Svo eru hjónin á bænum að fara til Köben í helgarferð um næstu helgi og ég ætla að taka að mér að passa allan hópinn !!! Þá verður nú eitthvað stuð hér!! Það á eftir að redda mér að hafa Guðnýju, hún er svo dugleg með litlu snúllu.

En í morgun voru stelpurnar á sundnámskeiðinu, litlu selirnir (hópurinn þeirra heitir það :-) og eru núna farnar út á hoppupúða, eins og venjulega. Ég ætla þess vegna að nota tímann og læra smá.

Heyrumst :-)

mánudagur, september 06, 2004

Dýralíf :-)

Hér er búið að vera hið dásamlegasta veður undanfarna daga!! Að vísu ekki glampandi sól í dag og í gær, soldið mistur og þoka í morgun en hlýtt og notalegt.
Á laugardaginn skelltum við okkur sum sé til Sönderborgar (einu sinni sem oftar ;-) á Íslendinga-hitt. Íslendingafélagið þar leigir íbúð ásamt tveimur öðrum "útlendingafélögum" (þjóðverjum og ég man ekki hverjum) og í restinni af húsinu er leikskóli. Þannig að það var setið úti í garði og börnin léku sér meðan fullorðna fólkið spjallaði, sólaði sig og borðaði íslenskt nammi og svo íslenskar pulsur. Okkar skvísur voru svo kátar með leiktækin að þær föttuðu ekki einu sinni að biðja um nammi, við "urðum" að nefna það að fyrra bragði :-) og þá er nú mikið sagt. Þarna hitti ég tvo krakka úr mosó sem ég kannaðist við, Nönnu og Snorra (ef einhver hefur áhuga á að vita nánari deili á þeim þá getur sá hinn sami sent inn fyrirspurn í formi comments! ) og svo Stínu frænku. Hana var ég reyndar búin að hitta fyrr um daginn í A-Z þar sem hún var að spóka sig með yngsta strákinn sinn (af þremur) og ömmu !! sína. Hún var ótrúlega hress (þ.e. amman), mér fannst hún bara virka miklu yngri en þegar ég sá hana síðast, fyrir ég veit ekki hvað löngu!
Í gær fór svo Birta í afmæli Christinu og ég talaði um að sækja hana klukkan 3 í staðin fyrir 4. Ég hringdi samt til öryggis og þá var auðvitað voða gaman og hún vildi vera allan tímann, sem var bara frábært.
Eftir afmælið langaði Birtu að fara í göngutúr "bara með mömmu" svo við keyrðum aðeins út fyrir bæinn og fundum okkur göngustíg inn í skóg. Þar tók ég smá þerapíu því ég er orðin svoddan pempía gagnvart öllum pöddum að það hálfa væri nóg. Ég er sko orðin ótrúlega kúl gagnvart geitungum og svoleiðis miðað við hvernig ég læt þegar ég sé ókunnuglegar köngulær og alls lags kvikindi. Aumingja Birta var orðin á taugum líka eftir að ég hrökk við og gargaði hvað eftir annað þegar ég sá drekaflugur og eitthvað fleira sem ég kann ekki að nefna. Reyndar sáum við líka lítinn sætan frosk sem var alveg eins og fölnað lauf þegar hann var kjurr. En við (eða kannski aðallega ég) komumst að þeirri niðurstöðu að það yrði skemmtilegt að skoða skógana í vetur. En ég held áfram að taka mig í aðlögun annað slagið með svona smá göngutúrum :-)
Síðan gengum við lítinn hring í Kliplev þar sem ekki er eins fjölskrúðugt dýralíf!

Í dag fór ég svo á bókasafnið í Aabenraa og las í nokkra klukkutíma, ótrúlega dugleg!!!

laugardagur, september 04, 2004

Við Linda ákváðum að láta skynsemina ráða og fara ekki með á fimmtudaginn þegar Ágústa og Gurrý fóru í Kolding Storcenter. Við ætlum frekar að kíkja þangað þegar nær dregur jólum.

Stúlkurnar eru núna byrjaðar í handbolta og finnst mjög gaman. Þar er auðvitað verið að kenna algjör undirstöðuatriði þannig að það var ansi skondið að fylgjast með þegar þau voru að "spila". Sóknin var eins og línudans; þrjú skref áfram, kasta, þrjú skref áfram, kasta... :-) En aðallega voru þau að leika sér með bolta, kasta á milli og ýmislegt. Mjög skemmtilegt :-)

Birta fór í afmæli í morgun til Kerstinar og var svo heppin að Kerstin á stóra systur á aldur við Guðnýju og þar með var Guðnýju boðið með. Síðan á Christina afmæli á morgun og ég hugsa að ég sæki hana eftir tvo tíma í staðin fyrir þrjá enda komið nóg af afmælum í bili svo sem.

Núna á eftir erum við að fara til Sönderborgar á Íslendinga "gaðering" einhvers konar. Verið að bjóða nýja Íslendinga á svæðinu velkomna skilst mér. Veðrið leikur við okkur þessa helgina svo þetta ætti að verða ágætt.

Í gær fórum við í bíltúr, ég og miðlungarnir þrír, að leita að leikvelli. Við skoðuðum nokkur ferðamannakort sem mamma tók í Fröslevlejren og fundum einn stað rétt hjá Aabenraa þar sem var merkt "skovlejeplads". Við þangað... og viti menn... þetta var skovlejeplads... sum sé allt búið til úr óhefluðum trjástofnum og drekaflugur og geitunar í hundraðatali að skoða þessa innrásarmenn í skóginn. En stelpunum fannst auðvitað rosa gaman og svo fórum við aðeins á róló hjá bílastæðinu sem við lögðum á, en hann var auðvitað ekki merktur inn á kortið enda afar venjulegar og ófréttnæmur! Við þurfum trúlega að spjalla við einhverja innfædda foreldra til að forvitnast um skemmtileg leiksvæði í nágrenninu.

Birta fór með okkur Lindu í bíltúr á þriðjudaginn þegar hinar voru í handbolta og við fórum í Fördapark (í þýskalandi) að gera stórinnkaup í matinn og svona. Það duttu auðvitað í körfuna hinir ýmsu kexpakkar eins og gengur. Við fengum okkur smá kex á leiðinni heim og Birta var "in charge" aftur í að rétta okkur og svona. Þannig að ég hugsa að hún hafi borðað þónokkuð mörg kex. Svo rétt eftir að ég sagði stopp og hún var búin að pakka saman restinni þá sagði hún: "... ég er svo svöng að ég verð að fá eitthvað að borða, annars dey ég úr hungri held ég...", við Linda brostum út í annað fram í, jæja, heldurðu það?? "já en ég veit samt ekki alveg hvað það þýðir!!" :-) :-)

miðvikudagur, september 01, 2004

Skólastúlkur

Jæja, þá er ég útskrifuð úr Kliplev-barnaskólanum ;-)

Birta var ein í gær og gekk auðvitað ljómandi vel. Þau voru að byrja að læra stafina og "svo var sett svona rautt strik undir A í nafninu og þá rétti ég upp hönd af því það er A aftast í mínu nafni", haldiði að maður bjargi sér ekki! "En ég setti ekki puttann upp í loftið heldur eins og maður gerir á Íslandi!" (Smá valdabarátta við Ásdísi sem var að leiðbeina henni þegar hún var nýkomin og segja henni að þegar maður réttir upp hönd í Danmörku þá setur maður vísifingur upp í loftið eins og maður sé að benda. Nei takk fyrir, Birta réttir upp hönd á íslensku með alla fingurna upp!! Eins gott að standa á sínu ;-)

Nú vill hún að mamma hætti að sækja hana í skólann eins og eitthvað smábarn!

Um næstu helgi er hún boðin í tvö afmæli, nóg að gera!!

En nú erum við að fara í bíltúr, þ.e. með bekknum. Það á að keyra um og sjá hvar allir eiga heima. Þeir sem eiga heima fyrir utan bæinn, sum sé. Þau fara í göngutúra til að skoða húsin hjá þeim sem búa inní bænum. Verð að drífa mig, danirnir eru svo hrikalega stundvísir að það er eins gott að standa sig :-)

Heyrumst... endilega skrifiði í gestabók eða comment svo ég viti hverjir eru að lesa :-)