sunnudagur, maí 29, 2005

Smá veðurfréttir fyrir dygga lesendur úti í hinum stóra heimi :-)
Það er komið sumar á Íslandi, sól og blíða dag eftir dag eftir dag, maður bara trúir varla hvaðan á sig stendur veðrið í orðsins fyllst merkingu !!

Ein og hálf vika eftir af skólanum hjá Birtu og þau þvælast í húsdýragarða og á aðra skemmtilega staði í góða veðrinu. Hún er öll að koma til á hjólaskautunum sem við keyptum á Ísafirði, við skautuðum í Kringluna í dag og fórum í bíó, sáum Ice princess sem var vel við hæfi því hún fjallar um skautaprinsessu :-)
Nú er daman ákveðin í að læra á skauta. Það verður gaman að vita hvað verður ofan á í haust þegar við veljum íþrótt vetrarins, skautarnir, ballettinn eða sundið (sem móðirin er að reyna að akitera fyrir).

Ég fór í "Óvissuferð" með deildinni minni í vinnunni á föstudaginn og það var KLIKKAÐ stuð !!! Ég set gæsalappir um óvissuferð þar sem óvissunni var aflétt nokkrum dögum fyrir ferðina vegna lélegrar þátttöku. Dagskráin var á þá leið að fyrst var farið í Gogart í Keflavík, þaðan í skíðaskála Fram í Bláfjöllum þar sem etinn var eðalgrillmatur og að lokum haldið á Ölver, karókíkránna alræmdu.

Við stelpurnar (5 af 27 manns í ferðinni) rúlluðum auðvitað upp Gogart keppninni... hehe... eða gerum það alla vega næsta ár ;-) en það var rosa gaman að prófa þetta !!

Maturinn í skíðaskálanum var afar góður og þar fór fram verðlaunaafhending fyrir Gogartið, að vísu var svo mikið af vinningum að slatti af þeim var dreginn út. Verðlaunin voru ekki af verri endanum: tvær stafrænar myndavélar, tveir prentarar, utanlandsferð, innanlandsflugferð, heimasími, gsm sími og fleira. Ég vann auðvitað ekki neitt frekar en fyrri daginn, ég sem ætlaði svo sannarlega að ná mér í myndavél !

Nú Ölver er bara eins og það hefur alltaf verið og ég er mjög stolt af sjálfri mér fyrir að syngja ekkert á sviðinu þar :-D
Hins vegar var mikið sungið í ferðinni og auðvitað mikið hlegið og mikið kjaftað. Ég var auðvitað í hópi þeirra alhörðustu sem drifu sig niðrí bæ um 3-leitið (við lögðum af stað í ferðina klukkan 3 um daginn !) og skreiddist heim til mín að verða fimm eftir svakalega skemmtilegt kvöld !!

Ég ætla núna að kíkja á einn Lost þátt áður en ég fer að sofa, hrikalega spennó !!
Bæjó spæjó

miðvikudagur, maí 18, 2005

Þá er búið að skipuleggja sumarið

Sjúkk... ég var búin að hafa smá áhyggjur af þessu !

Barnið er sum sé í 10 vikna sumarfríi eins og gengur og gerist og mér fannst ekki spennandi tilhugsun að senda hana á ÍTR námskeið viku eftir viku (án þess að vilja setja út á þau ágætu námskeið), þar sem hún er jú nýbyrjuð í nýjum skóla og ekki búin að mynda náin tengsl við krakkana þar.

En planið er þannig að skólinn er búinn ca. 7. júní og þann 11. júní kemur Guðný ásamt Önnu Katrinu vinkonu sinni og þær verða hér í tvær vikur að passa Birtu og skemmta sér. Birta fer svo með þeim út þann 25. júní og verður í góðu yfirlæti í Kliplev þar til við förum saman heim 28. júlí. Ég ætla reyndar út 15. júlí og stefnan er sett á Legoland þannig að þetta verður brjálað stuð !

Þegar við förum heim fer skvísan svo í tveggja vikna frí með pabba sínum og þá er bara rúm vika eftir þar til skólinn byrjar sem við dúllum okkur eitthvað tvær !

Eins og sjá má er útlit fyrir skemmtilegt sumar :-D

Annars er allt fínt að frétta af okkur, Birta er auðvitað afar dugleg í skólanum, labbar sjálf á morgnanna og hefur fengið að ganga ein heim nokkrum sinnum líka. Á morgnanna er sum sé gangbrautarvörður en ekki seinni partinn, þess vegna er móðirin móðursjúka frekar mikið með í maganum að vita af pínulitla krílinu sínu einu á ferð yfir Hamrahlíðina ! En það hefur gengið eins og í sögu og ég er ekki frá því að barnið hafi hækkað um nokkra sentimetra í fyrsta sinn sem hún fékk að ganga ein heim ;-)

Um síðustu helgi var Hvítasunna, eins og allir vita, og þá skelltum við okkur í frænkuferð til Ísafjarðar. Þ.e. ég, Systa og Linda, ásamt börnum og Kristjáni Lindumanni ! Við héldum til hjá Þóru og höfðum það í alla staði súpergott í Vestfjarðablíðu. Heimsóttum ömmu og Grétu, fórum í sveitaheimsókn til vinkonu Lindu og sáum mikið af sætu ungviði þar. Fórum í partý og þaðan í Krúsina (pöbbinn), sem hafði ekki breyst að neinu leiti síðan við skemmtum okkur þar síðast fyrir ca. 14 árum, það var hvorki búið að mála né skipta út tónlistinni !!! Á loftinu fyrir ofan Bónus var flóamarkaður og þar fann Birta forláta hjólaskauta á 500 kall, nákvæmlega eins og ég átti ! Ég skil ekkert í mér að losa mig við þá, við værum góðar saman á eins hjólaskautum ;-)