mánudagur, janúar 31, 2005

Ritstífla!

Það er auðvitað alltaf stuð á þessu stóra heimili ;-)

En þú hittir nú reyndar alveg merkilega vel naglann á höfuðið Systa mín!!
Ritgerðin er búin að taka frá mér alla orku en ritstíflan er hins vegar ríkjandi þar eins og hér og ég er sum sé ekki að fara að útskrifast í febrúar :-(

Er búin að vera soldið dán yfir þessu undanfarna daga að þurfa að játa mig sigraða aftur!! En í víðu samhengi er þetta auðvitað ekki meiri háttar vandamál, miðað við til dæmis stríð eða hungursneyðir, svo ég vitni í vin minn Spike úr Notting Hill :-)

Við Birta höldum galvaskar okkar áætlun og skellum okkur í helgarfrí til Íslands helgina 26.-27. febrúar.

Linda og Sabrína komu hins vegar heim í dag eftir fimm daga dvöl á klakanum í tilefni af áttræðisafmæli Hákonar, pabba Lindu. Unga daman var ekki of hrifin af öllu þessu ókunna fólki sem þóttist eiga í henni hvert bein og það var hreint dásamlegt að fylgjast með henni þegar hún kom heim. Hún brosti og skríkti og hentist um öll gólf eins og skopparakringla, tók trommusóló á húsgögnunum og fannst bara greinilega FRÁBÆRT að vera komin heim til sín :-D

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Stuð á stóru heimili !

Hér á bæ er oft mikið fjör við kvöldmatarborðið, enda ekki við öðru að búast á átta manna heimili. Ein lítil saga: um daginn var Aðalheiður að kvarta yfir strák í bekknum sem er alltaf að stríða henni. Ég benti henni á það að oftast stríddu strákar mest stelpunum sem þeir væru skotnir í og að hún ætti að segja það við hann næst þegar hann stríddi henni. Nema hvað að við kvöldmatarborðið áðan spyr ég hana hvort hún sé búin að segja þetta við strákinn; "nei, en ég sagði Ídu það... og hún er strax hætt að stríða öllum strákunum!"
Ég held að þær hafi ekki alveg skilið af hverju fullorðna fólkið frussaði matnum út úr sér af hlátri :-D

Annars er verið að undirbúa afmæli sem á að halda hér á sunnudaginn, þ.e. 7 ára afmæli Ásdísar. Ég bakaði skúffukökuna í dag, hún er ennþá bara púpa en á eftir að breytast í fallegt grænt fiðrildi ;-) Aðalheiður er hins vegar búin að panta pakkaköku fyrir sitt afmæli, þ.e.a.s. kakan á að vera eins og afmælispakki þannig að það mun reyna á listræna tertuskreytingahæfileika föðursysturinnar þegar þar að kemur. Fiðrildið er auðveldara því þar er ég í þjálfun, Birta var með fiðrildi í fyrra.

Birta var í smá vandræðum með hvernig köku hún ætti að velja sér
ekki vildi hún fiðrildi aftur


ekki barbí-köku aftur


og ekki pakka eins og Aðalheiður. En málið er sem betur fer leyst, hún verður með Bratz köku, sem er alveg eins og barbí-kaka nema með Bratz dúkku og auðvitað er það ALLT öðruvísi kaka!!!

sunnudagur, janúar 09, 2005

AFMÆLISDAGUR


TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ MAMMA !!!

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ HRAFN !!!

Hingað komu góðir gestir í lítið fjölskylduboð þann 3. janúar. Það voru Stína með yngsta strákinn sinn, Hrafn og Hrefna með tvíburana sína, Rakel og Sædísi. Börnin skemmtu sér hið besta, miðlungarnir okkar þrír tóku að sér eitt af gestabörnunum hver og báru þau hér um allt hús og léku við/með þau. Hrafn er sum sé 2ja ára og tvíburarnir 3ja ára þannig að þetta var frekar skondið allt saman :-D


laugardagur, janúar 01, 2005

GLEÐILEGT ÁR ...

... og ástarþakkir fyrir allar jólakveðjur og sendingar!!!



Þá eru hátíðahöldin afstaðin.
Hér er ekkert verið að bíða eftir neinum þrettánda. Jólaskrautið var tekið niður í búðunum milli jóla og nýjárs og áramótaskraut sett upp í staðin og jólatrén verða svo sótt á morgun fyrir þá sem eru búnir að setja þau út fyrir.

Við höfum haft það afskaplega gott hér í Kliplev. Afar hefðbundið jólahald með risajólapakkaflóði, hamborgarhrygg, sítrónumatarlímsbúðingi (frómas ;-), hangikjöti, nóakonfekti og meira að segja fundum við dansk maltöl sem bragðast eins og íslenskt (finnst mér allavega en ég er reyndar ekki heittrúarmaltmanneskja).

Birta var með pabba sínum og afa hjá Sif, föðursystur sinni, í þrjá daga milli jóla og nýjárs og skemmti sér hið besta.

Áramótin voru með þeim skrítnari sem ég hef upplifað, þ.e. flugeldaparturinn af þeim. Það var svartaþoka og svo þegar skotið var upp flugeldum þá hvarf reykurinn ekkert heldur breyttist einhvern veginn í meiri þoku. Við sáum ágætlega okkar eigin flugelda sem við kláruðum að skjóta upp alveg um miðnætti, svo gengum við hér aðeins út götuna til að skoða skothríðina hjá hinum og við sáum varla yfir götuna!! Ca. 10-15 mínútum yfir tólf þá heyrðum við orðið bara í þeim, þó verið væri að skjóta upp í næsta garði!!! Ótrúlega sérstakt!


Hér sjáið þið flugeld :)


Og hér eru stelpurnar í þokunni!

Ég fékk ekki vinnuna sem ég fór í viðtalið út af fyrir jólin, en það var starf íslenskukennara í Sönderborg. Það var nú smá léttir þegar ég var látin vita að ég hefði ekki orðið fyrir valinu því skólastjórinn talaði mikið um að börnin væru í þessari kennslu eftir hefðbundinn skóladag og aðalvinnan væri fólgin í því að hafa þau góð því flest hefðu ekki áhuga á að vera þarna!! Ég var aðeins farin að svitna yfir því að reyna að hafa ofan af fyrir 20-25 þreyttum og pirruðum börnum á aldrinum 10-15 ára og eiga að kenna þeim eitthvað líka!