mánudagur, ágúst 30, 2004

Tönder

Þá er nú helgin búin og svo sem ekki mikið gert.

Það varð ekkert af því að við færum á Tönder-hátíðina. Bæði voru að koma skúrir annað slagið alla helgina en aðallega voru einhver slappheit á liðinu. Linda og Sabrína eru báðar stútfullar af kvefi en ég er að verða góð af því. Skvísurnar fóru hins vegar í sundið á laugardagsmorguninn og það var auðvitað voða gaman.

Í dag komu hins vegar gestir frá Tönder. Óli, Gurrý, Ágústa, Huginn Óli (5 ára) og Goði Páll (1 og 1/2 árs). Við spjölluðum heilmikið og krakkarnir léku sér. Svo kom Skarpi og allur skarinn rölti til hans að kíkja á kofann hans. Ágústa og Gurrý ætla í Kolding storcenter einhvern næstu daga og það er aldrei að vita nema við kíkjum með þeim.

Birta segist vera tilbúin að vera ein í skólanum og ég ætla að heyra í kennaranum hennar í fyrramálið hvort henni finnist það ekki líka. Svo ætla ég að tékka á bókasafninu í Aabenraa, hvort þar er lesaðstaða, því þetta gengur ekki alveg nógu vel hjá mér að lesa svona heima (hefur reyndar aldrei gert það en maður er svo fljótur að gleyma ;-)

Í þessari viku byrja æfingar í handbolta fyrir millistelpurnar (Guðný byrjaði í síðustu viku). Ásdís og Aðalheiður voru báðar með í fyrra og ætla aftur og Birta ætlar að prófa en hún verður ekki á sama tíma og þær svo ég veit ekki hvort hún finnur sig í því.

Annað kvöld er svo fyrsti foreldrafundurinn minn sem foreldri skólabarns!!! Mikill áfangi ;-)

föstudagur, ágúst 27, 2004

Amma og afi farin heim :-(

Jæja þá er fyrir alvöru komið haust. Rok og rigning, sokkabuxur taka við af sokkum og amma og afi farin heim!

Við tókum því rólega á miðvikudaginn, skruppum reyndar til Tönder því þar er afar skemmtilega búð sem heitir Gamla Apótekið. Í Tönder búa líka Ágústa og Gunnar, Óla- og Gurrýjarbörn. Óli og Gurrý eru hjá þeim núna og til stendur að þau kíkji í heimsókn.

Í gær fóru svo mamma og Guðni heim. Skvísurnar fengu að hætta fyrr í skólanum til að fylgja þeim á lestarstöðina. Við vorum alltof snemma í því og biðum á lestarstöðinni dágóða stund. Það væsti svo sem ekki um okkur, glampandi sól en allt morandi í geitungum reyndar. Þegar lestin svo kom voru þau rétt komin inní hana þegar rigningin helltist yfir okkur eins og sturtubað og við áttum fótum fjör að launa. Sem betur fer hafði Maggi keyrt töskurnar svo við sluppum inní bíl :-)

Um helgina ætlum við svo að skella okkur á Tönder-hátíðina (sem ég veit ekkert hvað er :-) ef það verður gott veður.

En nú ætla ég að lesa smá áður en ég mæti í skólann klukkan 10.

þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Taka tvö

Jæja... búin að vera pirruð út í þessa bloggsíðu í nokkra daga... best að prófa aftur :-)

Hér er margt og mikið búið að ske og ég held ég reyni að rifja það upp soldið í tímaröð!!

Mánudaginn 16.8. fór ég á bókasafnið í Sönderborgarháskóla og náði mér í fyrstu bókina vegna ritgerðarsmíðarinnar!!!!!!!!!!! :-) :-)

Í Birtu skóla byrjar dagurinn á því að syngja og öll börnin segja nafnið sitt og telja svo hvað þau eru mörg. Birta hefur ekki viljað taka þátt í þessu en við vorum búnar að semja um það að hún myndi segja nafnið sitt á föstudeginum þegar hún var svo lasin. Þar með varð að byrja nýja viku á að telja í sig kjark aftur en á þriðjudaginn tók mín kona sig saman í andlitinu og sagði bæði nafn og númer eins og herforingi !!! Ég kom aðeins á eftir henni í skólann því ég náði ekki að borða morgunmat fyrir 8 (það tekur á að koma öllum grislingunum af stað ;-) og þegar ég mætti tilkynnti Mike (einn bekkjarbróðirinn) mér að hún hefði sagt nafnið sitt og var afar glaður yfir því. Mér finnst svo gaman að fá að vera með henni og kynnast öllum þessum skemmtilegu karakterum í bekknum. Ég og kennarinn höfum grínast með að ég þyrfti að fá vinnu hjá henni sem aðstoðarkennari því það er meira en að segja það að sinna 22 hálf-ósjálfbjarga gormum í 4 tíma streit!

Föstudaginn 20.8. kom bekkjarsystir Birtu, Thilde, með henni heim úr skólanum. Birta var auðvitað alveg ægilega hamingjusöm yfir því að fá vinkonu með sér heim en Thilde þessi er afar fullorðinsleg og dugleg stúlka sem situr við hliðina á Birtu og hefur leikið talsvert við hana og hjálpað mér þegar ég veit ekki hvað hlutirnir heita. Ásdís lék með þeim megnið af tímanum sem var fínt því hún er hinn besti túlkur. Við skruppum svo og gáfum öndunum á tjörninni rétt hjá skólanum þegar allir voru búnir að fá nóg af barbí.
Thilde labbaði með okkur á járnbrautarstöðina að sækja ömmu og afa og við skiluðum henni heim í bakaleiðinni.
Það voru að sjálfsögðu gríðarlegir fagnaðarfundir þegar amma og afi komu og hér hefur þurft mikla skipulagshæfileika til að allir sitji jafnoft við hliðina á hvoru þeirra við matarborðið og allt það ;-)

Laugardaginn 21.8. byrjuðum við á því að fara með miðskvísurnar þrjár á sundnámskeið í Aabenraa. Þetta var fyrsti tíminn og mikil gleði með það. Sundlaugin var svo vel upphituð fyrir blessuð börnin að sundhöllin eins og hún lagði sig var eins og gufubað. Svitinn hreinlega bogaði af foreldrunum sem sátu og fylgdust með. Næst held ég að maður skelli sér bara í sundbol líka!
Mamma og Guðni röltu um höfnina í Aabenraa á meðan og skoðuðu skútur, þeirra helsta áhugamál ;-)
Að sundinu loknu brunuðum við til Fröslev en þar voru fangabúðir í seinni heimstyrjöldinni. Þar hefur verið sett upp safn með alls kyns myndum og gömlum munum frá þessum tíma. Eitt herbergið var með kojum og skápum og öllu tilheyrandi eins og það var á sínum tíma og þetta hefur ekki verið neitt sældarlíf á okkar mælikvarða en þó eins og lúxushótel miðað við útrýmingarbúðirnar. Minni stelpurnar eru auðvitað alls staðar ánægðar þar sem hægt er að kaupa ís og við klikkuðum ekki á því enda hið besta veður þrátt fyrir rigningarspá. Reyndar voru þessar litlu mjög áhugasamar og afi og amma óþreytandi við að sýna þeim og útskýra.
Alla vega voru allir ánægðir með að hafa skoðað þetta nema einna helst unglingurinn en það er auðvitað í starfslýsingu þeirra að finnast allt svona ótrúlega boring svo við tókum það ekkert nærri okkur ;-)
Frá Fröslev var svo skroppið til Þýskalands til að kaupa mat og bjór og við þurftum að fara í 4 eða 5 búðir áður en við fundum rétta bjórinn handa ömmunni og afanum. Í síðustu búðinni keypti yngra fólkið líka fullt af áfengi og kvöldið endaði því með spjalli fram á rauða nótt. Skarpi kíkti líka aðeins með vinkonu sína frá Íslandi svo þetta varð bara næstum partý!

Sunnudaginn 22.8. tókum við því rólega heima. Birta fór að vísu í afmæli til Söndru sem er með henni í bekk og það var bara nokkuð gaman hjá henni. Afmælið átti að vera í 3 tíma en ég sótti hana aðeins fyrr, eftir að mamma Söndru hringdi, því eitthvað var þetta erfitt hjá litla stýrinu. En ég kalla hana nú samt góða að vera þar í næstum 2 tíma ein þar sem enginn skilur hana. Í skólanum eru þó Ásdís og Aðalheiður í næstu stofum.

Mánudaginn 23.8. Mamma og Guðni fóru með lestinni til Sönderborgar um morguninn og við fórum svo seinni partinn og sóttum þau. Mamma keypti rosalega djúsí svínasteik sem átti að vera í ofninum í tvo og hálfan tíma. Við sáum fram á kvöldmat klukkan hálfníu þannig að við keyptum pulsur handa stelpunum og gáfum þeim svo að borða og sendum í rúmið áður en við borðuðum. Purusteikin var svakalega vel heppnuð hjá okkur :-) og þetta var ósköp notalegt að borða bara fullorðna fólkið í rólegheitum. Við ákváðum að þetta væri nauðsynlegt ca. einu sinni í viku en þegar mamma var að passa börn í Englandi þegar hún var unglingur þá var þetta svona á hverju kvöldi þar.

Í dag fórum við svo til Flensborgar (sem er í þýskalandi fyrir þá sem eru jafn sleipir og ég í landafræði) og mældum aðeins út göngugötuna. Mamma fór í uppáhaldsbúðina sína þar, hana Bonitu, og keypti sér buxur og jakka. Annað var bara smádót og ekkert vísakort brunnið yfir ;-)

Í samráði við kennarann hennar Birtu ætla ég aðeins að fara að draga mig í hlé þar (því miður, mér finnst svo gaman að fylgjast með :-( og ég byrjaði í morgun með því að mæta klukkutíma á eftir henni. Það kemur sér vel að hún er farin að lesa því ég er búin að skrifa nokkur orð á blað bæði á íslensku og dönsku sem hún getur notað ef hún þorir ekki að tala.

Ég veit ekki hvort ég er búin að muna eftir öllu sem ég skrifaði síðast, þegar allt hvarf, en alla vega er komið nóg í bili. Ef einhver er að lesa ?? þá má ég ekki hræða fólk frá með því að skrifa heila ritgerði í hvert sinn :-)

miðvikudagur, ágúst 18, 2004

Shit !!!!

Ég var búin að skrifa heilmikla langloku um skólann minn og skólann hennar Birtu og hitt og þetta og það hvarf... shit... shit... shit... fyrirgefið orðbragðið... en ég þoli ekki þegar þessar tölvur stríða manni svona!!!

Nenni ekki að rifja þetta allt upp aftur núna, man kannski eitthvað af því á morgun!

Góða nótt ljóta tölva :-(

og góða nótt þið hin :-)

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Eggið að kenna hænunni :-)

Eitt gullkorn áður en ég fer að sofa...
Birta var að tala við pabba sinn í símann um helgina: "pabbi, þessi er gamall hjá þér!! þú ert svo oft búinn að segja við mig eitthvað með þegar þú verður stór, þetta er ekki fyndinn brandari lengur, þú ert orðinn stór!"
:-)
:-)

Sjónvarpið fundið

Jæja, búin að kaupa sjónvarp og fékk það ennþá ódýrara en það sem ég leitaði sem mest að. Það kom auðlýsingabæklingur heim í gær frá A-Z og þar var svipað sjónvarp á tilboði á 1379 kr svo það var kannski ágætt að við skyldum lenda í þessu rugli í gær, að vísu erum við örugglega búnar að eyða mismuninum í bensín á þessu flakki en...

Svo er það skólinn aftur hjá okkur Birtu á morgun eftir langt helgarfrí. Þetta eru soldið blendnar tilfinningar hjá henni, henni finnst gaman að vera byrjuð í skóla og nokkuð gaman í skólanum en er ansi pirruð á því að skilja svona lítið. En þolinmæði þrautir vinnur allar... :-)

Eftir skóla ætla ég svo að skella mér til Sönderborgar... eina ferðina enn... meira flakkið á mér!! Ég ætla að fara á háskólabókasafnið og gá hvort ég get ekki fengið lánaðar bækur þar... er búin að finna nokkrar sem mig vantar á síðunni þeirra!

Aðalstuðið hjá stelpunum um helgina er búinn að vera "hoppupúðinn" sem er staðsettur hjá pöbbnum !! og er eins og risastórt uppblásið trampólín og þar hoppa þær tímunum saman. Voða sniðugt system, foreldrarnir fara á pöbbinn og krakkarnir leika sér á meðan og allir jafn ringlaðir þegar haldið er heim á leið ;-)

Góða nótt...

laugardagur, ágúst 14, 2004

Sjúlla!

Á fimmtudagskvöldið var Birta svoooo þreytt að hún gat bara ekkert leikið eða farið út. Hún reyndist vera komin með 39 stiga hita litla skinnið.
Við vorum því heima í gær en hún var nú samt tiltölulega brött og er alveg eins og ný í dag :-)

Við Linda þvældumst um allar trissur í gær að leita að sjónvarpi á tilboði sem við höfðum séð um daginn en fundum það ekki. Í einni búðinni áttu þeir von á því og ætla að hringja þegar það kemur, það verður spennandi að sjá hvort af því verður. Það er sum sé 20" með innbyggðu vídeótæki og kostar 1500 danskar (ca. 17.000 íslenskar).

Annars er mest lítið að frétta, sólin komin aftur eftir þriggja daga sólarleysi og ég er að hugsa um að skella mér í "ljósatímann" minn. Fer út í sólbað ca. 15-30 mínútur á dag eftir því hversu heitt er en annars heldur maður sig mikið til í skugganum úti.

En hér eru nýjar myndir!

Heyrumst

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Loftið

Jæja ég keypti viftu í gær og það var að vísu sólarlaust í dag en ekki get ég sagt að það hafi kólnað mikið. Viftan var í gangi í alla nótt og við sváfum rosalega vel mæðgurnar en það var samt 30!!! stiga hiti í herberginu þegar ég vaknaði klukkan 7 í morgun. Haldiði að það sé!!! Með galopinn glugga og viftu í gangi. Þannig að ekki getum við kvartað yfir kulda, nei ónei.

En aðalerindið núna var loftið.
Þar er nú aldeilis allt að gerast núna!! Stiginn tilbúinn og komið teppi. Birta er flutt fram, hún mun sofa í "stofunni okkar" og ég í herberginu og þangað er ég líka búin að flytja tölvuna og búin að tengja mig við netið og allt. Sem sagt... við erum almennilega fluttar og nú er bara fínisering eftir og svo ætlar Maggi að setja upp smá eldhúskrók með vaski, helluborði og litlum ísskáp. Plássið sem við höfum hér uppi er ca. 50 fm svo þetta er nú ekkert mikið minna en íbúðin okkar í Blöndó!

Í skólanum í dag áttu allir krakkarnir að segja frá hvað byggju margir á heimilunum þeirra og við Birta erum afbrigðilegar í þeim efnum hvernig sem á það er litið. Það var eitt barn sem á ekkert systkini en annars áttu þau öll 1-4 systkini. Þannig að við vorum þær einu sem bjuggu á tveggja manna heimili. Reyndar vildi Birta meina að við byggjum á 8 manna heimili en þá vorum við á fjölmennasta heimilinu. Greinilegt að við föllum ekki undir skilgreiningu á vísitölufjölskyldunni hér í Kliplev ;-)

Nú ætla ég að skella inn nýjum myndum og svo kannski aðeins að byrja að lesa eitthvað af þeim ca. 50 linkum sem ég fann í gær vegna ritgerðarinnar. Að vísu komu upp rúmlega 13.000.000 síður !! þegar ég sló inn "change management" á google en ég lét duga að setja 50 í favorites!!

Heyrumst síðar... ekki vera feimin við að skrifa í gestabókina eða comment :-)

Ps. Birna, þú gleymdir að láta slóðina að blogginu þína fylgja í póstinum, á ekki að leyfa manni að skoða???

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Litli hrakfallabálkurinn

Gleymdi alveg að segja frá því síðast að Birta er búin að prófa slysavarðsstofuna í Aabenraa (eða læknavaktina reyndar).
Hún datt og rispaði af sér hálfa litlutána á vinstra fæti í byrjun síðustu viku og svo þegar við fórum á ströndina þá duttu auðvitað allir plástrar af og um kvöldið var sárið orðið ansi ljótt og fullt af sandi! Mamma móðursjúka vildi láta kíkja á þetta því hún treysti sér ekki til að hreinsa sandinn úr.
Læknirinn kíkti á þetta og sagði okkur að fara með hana heim í fótabað!!! Ég sá á honum að honum fannst þetta soldil histería... hehe...
En maður verður að vera viss!!

Nú er ég búin að fá send fæðingarvottorðin okkar og ætti þá að geta fengið danska kennitölu og svo er ég búin að fylla út þessa fáránlegu umsókn út af bílnum (ég veit, ég fer alveg að hætta þessu endalausa bílarausi, en þið getið ekki neitað því að þetta er eðalkerra ;-), ég setti reyndar bara spurningamerki í nokkra reiti því þetta voru fáránlegar spurningar!!

Á morgun ætla ég svo að kaupa mér viftu í svefnherbergið því það er eiginlega ekki hægt að sofa í þessum hita. Eini gallinn er að þá kólnar pottþétt með það sama þannig að þetta er eiginlega vítahringur... hmmm... erfitt líf...

föstudagur, ágúst 06, 2004

Ströndin

Í gær fór Aðalheiður sem sagt í Sommerland syd með vinkonu sinni og í staðin fengu Ásdís, Birta, Guðný og Sabrína að fara á ströndina. Sabrínu fannst reyndar bara alls ekkert gaman þar en okkur hinum fannst það frábært, Birta og Ásdís busluðu í sjónum, Guðný lá í sólbaði og við Linda tókum talsvert mikilli hafgolu feginshendi því það er hrikalega heitt!! 30 stiga hiti í gær og í dag og fór alveg niður í 26-27 í gærkvöldi.
Ég held bara að ég fái mér viftu í svefnherbergið, þetta er fullmikið fyrir svona klakabúa!
Eftir ströndina fórum við aðeins á göngugötuna í Sönderborg, þar sást greinilega að sumarfríin eru búin því varla var sála á ferli! Svo settum við punktinn yfir i-ið með því að fá okkur McDonalds í kvöldmat (hmmm... og við Linda sem erum byrjaðar í átaki... en hvað gerir maður ekki fyrir börnin... lætur sig meira að segja hafa það að borða hamborgara ;-)

Við Birta fórum aftur í skólann í dag, auðvitað, og það var bara ágætt, ég læri heilmikið því kennarinn hennar talar svo hægt og skýrt og svo auðvitað af því að tala við krakkana. Þau eru soldið feimin við Birtu en hún var samt að leika við eina stelpu í dag og ég túlkaði fyrir þær ;-) Þær voru með eins konar púslkubba og bjuggu til girðingu, gras og slatta af lömbum.

Skólinn er voða frjálslegur, við erum enn ekkert farin að fara eftir stundatöflunni, förum ekki einu sinni endilega í frímínútur á sama tíma og hinir heldur bara þegar hentar. Það er mikið leikið og í frímínútum mega krakkarnir ráða hvort þeir eru inni eða úti og Birta hefur alveg eins verið inni þó að frænkur hennar séu úti að leika. Bæði er hún soldill "innipúki" og svo er bara alveg fullt af spennandi dóti sem hún þarf að prófa.

Inni í stofunni eiga þau hvert sinn bolla til að fá sér vatn, hvert sín skæri, hvert sína skúffu til að geyma í myndir sem þau teikna og svo eru sérstakir bakkar til að geyma á dót sem er í miðjum leik eins og kubba og svoleiðis.

Birta er voða hrifin af kennaranum, ég sé að þær eiga eftir að verða góðar vinkonur, við fórum í skoðunarferð um skólann í dag og þá fór hún og leiddi kennarann í staðin fyrir mig! Hins vegar er þetta auðvitað ansi erfitt stundum og kl. 10 vildi hún endilega fara heim (skólinn er frá 8-12), var alveg búin að fá nóg en svo fengu þau taupoka til að merkja og lita mynd á og eftir það flaug tíminn frá henni svo skóladagurinn var búinn áður en hún vissi af. Taupokana fá þau svo að eiga til að geyma í þeim aukaföt og vetrarföt þegar þar að kemur.

En nú er komin helgi með sól og sumri og bara 13 dagar þar til Ásdís amma og Guðni afi koma :-)

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Skólamyndir

Ef þið smellið á fyrirsögninga þá getið þið skoðað myndir af fyrsta skóladeginum (og svo er ég reyndar búin að setja upp myndakafla hér til hliðar, ég er svo mikill megaforritari að ég bara á ekki orð ;-)

Hér er komið alvörusumar með 30 stiga hita svo manni fannst nú soldið skrítið að vera að byrja í skólanum.

En ég fæ sum sé að halda áfram í skólanum með Birtu meðan hún er aðeins að ná áttum í allri þessari dönsku. Ég ætti nú að læra talsvert á því líka :-)

Á morgun fer Aðalheiður með vinkonu sinni í Sommerland Syd og ég, Linda, Ásdís og Birta ætlum að gera eitthvað annað skemmtilegt í staðin, segi ykkur frá því á morgun!!


þriðjudagur, ágúst 03, 2004

Skóli !!!

Jæja, þá er stóri dagurinn á morgun.

Fyrsti skóladagurinn!!!

Við fórum í heimsókn í skólann í gær og hittum kennarann hennar Birtu og spjölluðum aðeins við hana. Birta var auðvitað voða feimin af því hún skildi hana ekki en þetta virðist afar geðug kona :-) Við eigum svo að mæta kl. 9 í fyrramálið og foreldrarnir eiga að vera með fyrsta daginn, svo sjáum við til hvernig hún plumar sig.

Það verða 22 börn í bekknum, 22 strákar og 8 stelpur. Ein stelpan býr hér nálægt okkur, sagði hún okkur kennarinn, en annars eru mörg börnin sem búa út í sveit eða í litlum bæjum í kring sem ekki eru með sérskóla.

Það eru svo 3 aðstoðarkennarar sem eru með henni Inge-Britt til skiptis og mér skilst að þetta sé soldil leikskólastemming hjá þeim, engin harka í kennslunni svona fyrsta veturinn!

Anyway... meiri fréttir á morgun... ég veit ekki hvor okkar er með meiri hnút í maganum af tilhlökkun/spenningi/kvíða... Birta eða ég ;-)