föstudagur, júlí 22, 2005

Sumarfrí

Best ég skrifi hér inn ferðasöguna það sem af er, svona meðan ég bíð eftir að myndirnar úr nýju fínu stafrænu myndavélinni minni hlaðist inn á Birtu síðu :-D

Ég flaug sum sé út á föstudag og var komin á Sólbakkann til Fríðu og co. um kvöldið. Sat og spjallaði, drakk bjór og hélt fyrir þeim vöku fram eftir nóttu en á laugardaginn fórum við Fríða svo á strikið í smá búða- og kaffihúsaráp. Mér tókst auðvitað að kaupa mér nokkrar flíkur og ... surprize surprize ... eina tösku !!

Lestin mín fór svo frá Köben kl. hálfsjö. Vegna viðgerða á brautarteinunum þurfti ég að taka strætó hluta af leiðinni og svo tvær aðrar lestir þannig að Maggi og Linda ákváðu að sækja mig til Fredricia (upp með landakortin ;-) Stelpurnar stóðu í þeirri trú að ég kæmi með lest seint um kvöldið eða nóttina og var sagt að Maggi ætlaði að hitta mann í Fredricia þegar þau lögðu af stað í bíltúrinn. Þær urðu því ansi hissa þegar "maðurinn" reyndist vera ég en auðvitað grunaði þær þetta, svona eftir á að hyggja alla vega ;-)

Ég tók að sjálfsögðu rigninguna með mér frá Íslandi og við höfum því tekið því nokkuð rólega, farið í bíltúr til Sönderborgar, Aabenraa, Flensborgar og Tönder. Í gær hins vegar brunuðum við í Djurs sommerland sem er fyrir ofan Århus (voruði ekki ennþá með kortið við hendina ? ) og er samkvæmt rannsókn stelpnanna skemmtilegasta sommerlandið í Danmörku. Við vorum búnar að fylgjast vel með veðurspánni til að finna þurran dag og spáin reyndist rétt, það rigndi nánast þar til við lögðum bílnum fyrir utan Djurs en eftir það var fínt veður, ekki glampandi sól allan tíman en hlýtt og notalegt. Hér niðurfrá hins vegar rigndi allan daginn en í dag var sól svo þetta var snilldarplan :-)

Djurs var auðvitað æði, fullt af tækjum en líka trampólín og svoleiðis sem hægt var að hamast í sem er eiginlega vinsælla þegar upp er staðið.


Á leiðinni heim var allt stopp á hraðbrautinni, þar hafði orðið slys og hún var lokuð í marga klukkutíma. Linda fattaði sem betur fer að drífa sig strax að bakka að næsta exiti og við fórum eftir sveitavegum heim því annars hefðum við verið stopp þarna í alla vega fjóra tíma.

Læt þetta duga í bili... framhald síðar :-)

föstudagur, júlí 08, 2005

Þá eru bara fjórir vinnudagar þar til ég byrja í sumarfríi !!
Og af því að það eru heilir 4 mánuðir síðan ég kom úr 8 mánaða fríi, þá er ég að verða viðþolslaus ;-) Það spilar reyndar kannski eitthvað inní að litla snúllan mín er í úttlandinu, úff hvað ég hlakka til að knúsa hana í klessu !!!!! Ansi tómlegt hér á heimilinu.

Er búin að vera að hugsa það undanfarið (og ræða við hinar ýmsu frænkur) hvernig börn (þar með talin ég) fóru í sveit heilu og hálfu sumrin hér á árum áður. Ég hafði ekki fyrr hugsað út í þetta frá hlið foreldranna, frekar sjálfmiðuð þið skiljið ;-) en örugglega hafa allir gott af þessu svona í einhvern tíma, læra að meta hvert annað betur eftir smá aðskilnað.

Annars hef ég bara verið að chilla; farið í bíó, út að borða, út að hjóla, lesið og slakað á. Ég er t.d. að lesa Sölku Völku núna, í fyrsta sinn ! og hef gaman af, enda er ég eins og fram kom um daginn búin að taka nóbelsskáldið í sátt. Sem dæmi um það þá fór það óendanlega í taugarnar á mér á mínum grunn- og framhaldsskólaárum að maðurinn skyldi ekki geta notað sömu stafsetningu og aðrir, svo í gærkvöldi þegar ég var að lesa þá fór ég að pæla í því hvort búið væri að breyta í "rétta" stafsetningu (til nútímamáls eins og í íslendingasögunum ;-) og fór að gá en þá var ég bara hætt að taka eftir orðum eins og "laungu" og "lánga". Og ég sem er ógeðslega pikkí á svona hluti, kannski er þetta bara eðlilegri stafsetning ?!?



Take the MIT Weblog Survey
Könnun um blogg og netnoktun

laugardagur, júlí 02, 2005

Duran

Well well well, þá eru hetjurnar búnar að stíga á stokk á klakanum !!!
Eins og Simon sagði; við erum loksins komnir eftir 25 ára bið. Og ég segi nú bara sem betur fer komu þeir ekki fyrr ! Því ef þeir hefðu komið hér fyrir ca. 20 árum þá hefði maður bara dáið, það er ekkert flóknara ;-)

Andy krútt :-)

Það var auðvitað klikkuð stemming, maður dansaði og söng (eða öskraði öllu heldur) eins og brjálæðingur. Soldið datt fjörið niður þegar þeir spiluðu nýju lögin sín en þakið ætlaði líka af höllinni í æsingnum þegar þeir tóku gamla góða slagara eins og Save a Prayer, Wild Boys, Planet Earth og fleiri og fleiri. Það var soldið krúttlegt að sjá allt þetta lið hátt á fertugsaldri algjörlega missa sig af æsingi yfir þessum "köllum" á sviðinu. Þeir mættu hins vegar athuga það þarna í Egilshöllinni að koma sér upp risaskjá fyrir svona mannmarga viðburði, ég get ekki sagt að maður hafi verið í neinu návígi við hljómsveitina þarna aftarlega í þessum 11 þúsund manna hópi. En skítt með það, stemmingin var ROSA góð og kvöldið frábært í alla staði :-D

Nú er maður kominn í ham og næsta mál á dagskrá er að finna tónleika með meistaranum Morrissey og fá einhvern með sér í pílagrímsferð til að hlusta á þann snilling !

Ps. ég veit ekki hvort það er bundið við mína tölvu en textinn á þessari blessuðu síðu minni á það til að hverfa af skjánum ! Þá virðist vera nóg að skrolla niður og upp aftur til að hann birtist. Vildi bara benda á þetta svo fólk missi ekki af einhverjum gullkornum sem ég skrifa hér ;-)